140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vísaði fyrst til þess að ekkert hefði komið fram í skrifum Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns sem segði að Alþingi gæti ekki beint því til saksóknara að fella niður ákæru eða breyta henni.

Í grein Andra Árnasonar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftir að Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um málshöfðun og kosið saksóknara Alþingis, varamann og þingnefnd er málið komið úr höndum þingsins. Alþingi getur ekki eftir það afturkallað málsókn, hvorki hið sama þing né nýskipað.“

Svo segir í þessari grein og ég get ekki skilið það nema á einn veg, þó að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kunni að skilja það með öðrum hætti.

Hvað varðar það hvort menn eigi að leiðrétta mistök ef menn telja að mistök hafi verið gerð verða menn að sjálfsögðu að ákveða það sjálfir hvernig þeir vilja bregðast við. Þegar búið var að greiða atkvæði fjórum sinnum um málshöfðun á hendur einstökum ráðherrum (Forseti hringir.) tók Alþingi meðvitaða ákvörðun um að samþykkja tillöguna svo breytta og vissi þess vegna hvað það var að gera.