140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:23]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Við ræðum málið innan þess ramma að það sé þingtækt, ég er ekki endilega sammála því, en það er úrskurður forseta og ég verð að sætta mig við hann sem þingmaður hér á þinginu. Hv. þingmaður heldur því fram í ræðu sinni að það geti hjálpað hinum ákærða, og væri svo sem ekki hættulegt, að fara til Mannréttindadómstólsins, sem hann gæti auðvitað gert hvort sem er og var vandlega skoðað á sínum tíma hvaða forsendur væru fyrir því að hann gerði það.

Eina efnislega forsendan sem hv. þingmaður nefnir er þetta, fyrir utan Icesave-málið sem virðist hafa breyst á þeim tíma sem liðinn er síðan, og væri fróðlegt að heyra meira um, er það að nokkrir þingmenn hér í salnum telja sig og forseta Alþingis hafa gert mistök. Er það ástæða þess að við eigum að setja landsdóm nánast í stopp, að setja saksóknarann í vanda og ræna þeim rétti af hinum ákærða að verja sig fyrir dómi og láta hann standa í því það sem eftir er ævinnar að bera þetta mál eins og herðakistil með sér hvert sem hann fer? Það er líka ábyrgð, forseti.