140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það síðasta þá hef ég ekki lyst á réttarfari sem felur í sér að það séu mannréttindi sakborninga að fá að verja sig fyrir dómi. Það er íþyngjandi athöfn að ákveða að ákæra menn. Röksemdir af því tagi að sakborningum sé það sérstakur ávinningur og þeir eigi að fagna því eins og hverjum öðrum happdrættisvinningi að fá að njóta þeirra forréttinda að sæta ákæru um refsivert athæfi — slíkur málflutningur gengur ekki upp í lýðræðisríki og réttarfarsríki. Hann er ekki boðlegur í réttarfarsríki. Honum yrði að minnsta kosti mjög illa tekið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið.

Við eigum þess vegna að stíga varlega til jarðar, vanda málavinnsluna. Það kann vel að vera að málsástæðurnar, (Forseti hringir.) sem hv. þm. Bjarni Benediktsson færir fram í tillögu sinni, séu léttvægar, en þá á að taka til þeirra efnislega afstöðu í nefnd. (Forseti hringir.) Sú efnislega afstaða á að liggja til grundvallar ákvörðun okkar um að synja tillögunni samþykkis.