140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt sem ég vil einkum gera athugasemd við í máli hv. þingmanns. Fyrra atriðið snýr að því sem hér hefur aðeins verið komið inn á og varðar það hvort þingmaðurinn telur komin fram nægjanleg efnisleg rök til að kalla til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde. Þingmaðurinn telur að svo sé ekki. Það hefur hins vegar komið fram í umræðum dagsins í dag að fjölmargir þingmenn telja annaðhvort fullt tilefni til þess eða að það þurfi að minnsta kosti að taka það til sérstakrar skoðunar. Með því er strax fram komið að það eru deildar meiningar um atriðið. Af þeirri ástæðu er sérkennilegt að hlýða á málflutning um að það verði að vísa málinu frá án þess að þetta sé skoðað nánar.

Seinna atriðið er það að hv. þingmaður hefur talað um að Alþingi hafi með einhverjum hætti misst málsforræðið yfir málinu. Þetta stenst auðvitað enga skoðun. Menn hafa vísað í fræðimenn, suma löngu frá fallna, aðra sem hafa verið að skrifa að undanförnu. Ég ætla að bæta við þá umræðu og vísa beint í úrskurð landsdóms sjálfs sem hefur meðal annars fjallað um þetta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sá sem Alþingi kýs til að sækja málið af sinni hálfu, eftir að það hefur tekið ákvörðun um að ákæra, hefur ekki forræði á því hvers efnis ákæran er sem gefin er út í málinu. Telji hann rétt að takmarka eða auka við ákæruatriðin sem fram koma í þingsályktuninni verður hann að beina því til Alþingis að samþykkja nýja þingsályktun með þeim breytingum sem hann telur rétt að gera. Saksóknari Alþingis hefur því hvorki ákæruvald í málinu né hefur hann forræði á því hvers efnis ákæran er.“

Þetta gæti ekki verið skýrara.