140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hver sem niðurstaðan er úr því deiluefni lögfræðinga lífs og liðinna hvort Alþingi eða hvernig Alþingi getur hagað sér í þessu tiltekna máli er alveg klárt að ákæra verður ekki borin til baka á forsendunum „mér finnst“ í framhaldi af þeim umræðum sem áttu sér stað hér í september 2010. Það er alveg ljóst að tillaga um að ákæra verði borin til baka verður að innihalda fullnægjandi röksemdir fyrir þingheim fyrir því að grundvallarforsendur hafi breyst í málinu eða að nýjar upplýsingar hafi komið fram sem breyti líkum á sakfellingu þess sem um er að ræða.

Hv. þingmaður hefur rætt aðallega eitt mál, Icesave-málið. (Gripið fram í: Nei, nei.) Hv. þingmaður telur að vegna þess að það kunni að henta okkur illa í málflutningi okkar fyrir ESA-dómstólnum núna eftir allar þær vendingar sem Icesave-málið hefur tekið á sig eigum við að fella niður málið gegn Geir Haarde.

Forseti. Menn verða að hafa fastara land undir fótum en þetta.

Icesave-málið, já, menn geta rætt það fram og aftur og það er sjálfsagt að við gerum það. Að vísu tel ég óheppilegt að gera það í þessu samhengi en sá ákæruliður snýst um það að menn í ríkisstjórninni hefðu átt að koma í veg fyrir að landið og þjóðin lentu í því klandri sem Icesave-málið var, er og verður. Það er ekki hægt með hentistefnurökum að fjarlægja þann (Forseti hringir.) sakargrunn sem þar lá til grundvallar.