140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég var frammi að horfa á handboltann þegar hv. þingmaður hóf ræðu sína, en ég tók eftir því í lokin að hann nefndi sérstaklega að hann styður þá tillögu Bjarna Benediktssonar að málið gangi til saksóknarnefndar. Ég styð hina rökstuddu dagskrártillögu, en auðvitað hef ég áhuga á því hvað gerist í því fræðilega tilviki að hún nái ekki fram að ganga. Þá spyr ég: Af hverju saksóknarnefndar? Hvar í þingsköpunum er það nefnt að saksóknarnefnd eigi að fá svona mál til umfjöllunar? Við erum með sama minnisblaðið hér frá nefndasviði um starfssvið saksóknarnefndar Alþingis. Hún á að gera þrennt, það sem Bjarni Benediktsson af einhverjum ástæðum las upp og best að lesa upp aftur, með leyfi forseta:

„1. Hún á að hafa eftirlit með því að saksóknari framfylgi ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra.“

Kemur þetta mál því máli við að hún eigi að taka við tillögu af þessu tagi?

„2. Hún á að veita honum“ — þ.e. saksóknara — „þá hjálp sem hann þarf á að halda til þess að honum sé fært að annast þau verk sem honum eru falin með lögum og ákvörðun Alþingis.“

Eru þetta rökin fyrir því að saksóknarnefnd, fimm manna nefnd, eigi að taka þetta mál?

„3. Þá virðist ætlun löggjafans hafa verið að saksóknari gæti borið einstök atriði er varðar starf hans undir saksóknarnefnd auk þess sem hann gæti leitað ráða hjá henni ef þörf krefði.“

Það er ekkert hér sem gefur það til kynna að saksóknarnefnd sem kosin er samkvæmt öðrum lögum en þingskapalögum taki hér við hlutverki fastanefndar.

Úr því að áhuginn er svona mikill á að koma þessu í saksóknarnefnd undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar, hins iðrandi syndara og mistakamanns hér í salnum, verður manni á að spyrja: Af hverju var málið ekki borið upp í saksóknarnefnd? Þar á Sjálfstæðisflokkurinn fulltrúa, (Forseti hringir.) hv. þm. Birgi Ármannsson. Það hefði verið eðlilegri aðkoma að saksóknarnefnd fjallaði um það beint og beindi því þá til (Forseti hringir.) Alþingis sem hana kaus að gera tiltekna hluti í þessu efni.