140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

formennska í Samfylkingunni.

[13:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það var af virðingu við landbúnaðinn sem ég líkti þeim tveimur forustumönnum, sem ég nefndi til sögunnar áðan, við tvílembinga. Ef hv. þingmanni finnst það einhver móðgun við sig að vera kallaður hrútlamb, sem er yfirleitt efnilegt yrði, dreg ég þau ummæli mín til baka. (Gripið fram í: Nei, nei.) Hins vegar sýnist mér, fyrst hv. þingmaður er að tala um tvílembdar ær, að það verði ekki hlutskipti Framsóknarflokksins að ganga marglembdur til þeirra kosninga [Hlátur í þingsal.] sem verða á næsta ári. Staðreyndin er einfaldlega sú, fyrst hv. þingmaður kýs að ræða um forustu stjórnmálaflokka, að engri forustu neins flokks hefur tekist að klúðra málum jafnsterklega og forustu Framsóknarflokksins. Hér hefur Framsóknarflokkurinn verið í kjörlendi, hann hefur háð baráttu við ríkisstjórn (Gripið fram í.) sem hefur verið í miklum vandræðum og er loksins núna að sigla í gegn — og hann skilar engu. Hann er í verri stöðu en þegar kosningum sleppti. Hann ætti að læra af Sjálfstæðisflokknum sem hefur þó gengið miklu betur og er sjálfstæður (Forseti hringir.) en Framsóknarflokkurinn er hins vegar eins og lítið lamb á eftir ánni þar sem hann lallar í humáttina eins og alltaf á eftir Sjálfstæðisflokknum. (Forseti hringir.) Þetta er spurning um að taka örlög sín í eigin hendur. (GBS: Er tími forsætisráðherra liðinn? Svaraðu þessu.)