140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki tala lengi í þetta skiptið. Ég ætla fyrst og fremst að koma að nokkrum athugasemdum og leggja áherslu á þær athugasemdir sem ég gerði áðan. Í fyrsta lagi erum við að tala um töluvert háa fjárhæð miðað við þingsályktunartillögu sem við ræddum hér áður, mögulega 5–6 milljarða. Mér finnst athyglisvert að ekki hafi verið lagt mat á það hvað undanþágurnar sem mælt er fyrir um þýða í minni skatttekjum og það er það sem fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins. Það er farið í einhvern leik í þessu fylgiskjali, það er slegið úr og í. Það kemur þó skýrt fram að ekki er búið að leggja mat á hvað þetta getur þýtt í minni skatttekjum. Það finnst mér mjög sérkennilegt, frú forseti, og mælist til þess að sú nefnd sem fær þetta til meðferðar óski eftir því að reynt verði að leggja mat á það. Af 5–6 milljörðum hljóta þetta að vera töluverðar upphæðir. Mér finnst sérstakt að fjármálaráðuneytið skuli senda svona frá sér og reyna ekki að leggja mat á upphæðina.

Ég ítreka enn og aftur að ekki hafa komið fram neinar upplýsingar um hvort þetta mismuni hugsanlega íslenskum fyrirtækjum varðandi sölu á þjónustu, tækjum og tólum. Því þarf að svara. Það verður væntanlega ekki gert nema með því að fá frekari upplýsingar um hvað þetta getur átt við, þ.e. hvers konar tæki, tól og þjónustu sem annars hefði verið keypt á Íslandi. Þá vil ég geta þess að ég tel vel koma til greina að hafa einhver takmörk á því hvaða búnaður sem hægt að kaupa á Íslandi og þjónusta getur fallið undir þetta, og verði undanþeginn skatti, þ.e. að þetta sé bara eitthvað sérhæft sem ekki er hægt að nálgast hér. Ég hvet efnahags- og viðskiptanefnd til að skoða það. Að öðru leyti finnst mér vanta annan rökstuðning fyrir því af hverju þetta eigi að gilda um þessa styrki en þann að það sé krafa Evrópusambandsins. Það hefur ekki verið skýrt út undir hvaða skilgreiningu Evrópusambandið fellur í þessu tilviki, hvort það er alþjóðastofnun, ríki með sendiráð eða eitthvað þess háttar. Ég kalla eftir skýringum á því.

Þessi mál verða rædd í utanríkismálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Ég tel einsýnt að nefndirnar verði að gefa sér góðan tíma til að fara yfir málið. Þótt reynt sé að líkja þessu við samninga við alþjóðastofnanir eða erlend ríki varðandi sendiráð er um hvorugt að ræða að mínu mati, heldur styrki sem verið er að veita vegna ferlis sem Íslendingar eru í gagnvart Evrópusambandinu. Hvaða alþjóðastofnun er þarna átt við?

Frú forseti. Ég vil koma þessum athugasemdum á blað með þessari ræðu og hvet nefndina til að skoða þau atriði sem ég gerði athugasemdir við.