140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins bæta í um umræðuna um auðlindamálin, ekki síst í ljósi innleggs hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar áðan. Hann benti á það að lengi hefði verið umræða um auðlindamálin á Íslandi. Það er hárrétt. Ég hafði orð á því að við værum hins vegar enn stödd á þeim stað að hafa ekki gengið frá því hvernig við útfærum það að arðurinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar skili sér með sanngjörnum og eðlilegum hætti til þjóðarinnar. Þar erum við enn á sama stað og við höfum verið áratugum saman, allt of lengi. Vissulega er tekið veiðigjald af sjávarútveginum en því hefur iðulega verið ýtt út af borðinu þegar rekstraraðstæður í greininni hafa verið dæmdar erfiðar og þar höfum við yfirleitt verið að tala um örfáa milljarða. Ég held að þetta hafi verið rúmir 3 milljarðar sem sjávarútvegurinn greiddi í veiðileyfagjald í fyrra. (TÞH: Tíu á þessu ári.) Hækkar vissulega á þessu ári en það er einmitt út af því að það er komin ný ríkisstjórn í þessu landi sem vill fyrst og fremst gæta að almannahagsmunum í landinu.

Það er afar mikilvægt innlegg í þessu minnisblaði frá auðlindanefndinni sem ég vísaði til áðan um sjálfbæra þróun og þessar þrjár víddir sem þurfa allar að koma saman til að hægt sé að tala um sjálfbæra atvinnustarfsemi, þ.e. umhverfisvíddin, efnahagsvíddin og samfélagsvíddin. Það er mikilvægt að við tryggjum í þeirri vinnu sem nú fer fram um fiskveiðistjórnarkerfið að allir þessir þættir séu hafðir til hliðsjónar þannig að sú samfélagssátt sem vonandi tekst að byggja þar sé hvorki á kostnað umhverfissjónarmiðanna né efnahagslegu sjónarmiðanna. Ég vil leggja það inn þó að samfélagssáttin sé sannarlega nauðsynleg að við getum ekki byggt hana á því að rekstrarskilyrði í viðkomandi grein séu fyrir borð borin til framtíðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)