140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

hlutafélög og einkahlutafélög.

191. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Skúli Helgason) (Sf):

Frú forseti. Ég kynni nefndarálit frá efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á báðum þessum lögum. Það er verið að færa þarna ýmislegt til samræmis við þau skilyrði sem við höfum undirgengist með EES-samningnum. Ég vek sérstaklega athygli á því sem fram kemur í nefndarálitinu um þær breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram þær athugasemdir frá ríkisskattstjóra að það væri óeðlilegt, og fengi illa samræmst meginreglunni um að hluthafafundur sé æðsta vald í málefnum félags, að heimila hluthöfum að taka ákvarðanir utan hluthafafundar. En gert er ráð fyrir því í frumvarpinu eins og það kemur frá ráðherra. Einnig var lýst áhyggjum af því að ef hluthafar gætu samþykkt samhljóða að falla frá því að skila inn sameiginlegum efnahags- og rekstrarreikningi með hliðsjón af hagsmunum kröfuhafa sem samrunareglum hlutafélagalaga og reglum um skiptingu er ætlað að standa vörð um. Heimildin væri ekki til þess fallin að létta stjórnsýslubyrðum af félögum þar sem gerð slíkra gagna væri eðlilegur þáttur í samrunaferli og hefði þýðingu fyrir eftirlit ríkisskattstjóra. Sama var sagt um þá tillögu frumvarpsins sem ætlað er að undanþiggja félagsstjórn skyldu til að upplýsa hluthafa um verulegar breytingar sem eiga sér stað frá því að samrunaáætlun er undirrituð og fram að fundinum ef hluthafar samþykkja samhljóða.

Meðal annars með hliðsjón af þessum athugasemdum ríkisskattstjóra leggur nefndin til að ákvæðum frumvarpsins verði breytt með þeim hætti sem lýst er nákvæmlega í nefndarálitinu og ég ætla ekki að rekja hér í stórum dráttum. Þar er meðal annars gerð sú tillaga að skýrt komi fram að allir hluthafar félagsins, ekki einungis þeir sem sækja hluthafafund, skuli samþykkja samhljóða á hluthafafundi að ekki þurfi greinargerð stjórnar um samrunaáætlun. Ekki verði með öðrum orðum gert ráð fyrir því að hluthafar geti gengið frá slíkum samþykktum utan hluthafafundar.

Í b-lið 3. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að félagsstjórnir skuli ætíð annast um að saminn sé endurskoðaður sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur þrátt fyrir að fallið sé frá samningu greinargerðar en í gildandi lögum, 121. gr. hlutafélagalaga, er gert ráð fyrir að reikningurinn fylgi greinargerð stjórnarinnar.

Ég ætla ekki að fara nánar í gegnum þau atriði sem nefnd eru hér í nefndarálitinu en vísa í það hvað varðar nánari útfærslu breytingartillagna nefndarinnar. Undir álitið skrifa Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, Þráinn Bertelsson, sá sem hér stendur, Guðlaugur Þór Þórðarson, Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson og Lilja Mósesdóttir, með fyrirvara.