140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara minna hv. þingmann á það að við erum fullvalda ríki. Það er okkar ákvörðun hvort við verðum yfir höfuð áfram í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. (Gripið fram í.) Þess vegna er það líka okkar ákvörðun að hve miklu leyti við tökum þátt í þessu samstarfi.

Ég hefði viljað sjá embættismannakerfið og framkvæmdarvaldið, sérstaklega, fara og ræða þessa kvótaaukningu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því að þetta er fyrst og fremst ákvörðun sem var tekin í sjóðnum um hvert okkar hlutfall ætti að vera. Ég hugsa að það sé ekkert mjög vel rökstudd ákvörðun að við þurfum að greiða akkúrat þessa 37 milljarða í aukningu og ekki heldur að það þýði þessa aukningu á atkvæðavægi okkar. Ég held að það sé bara útkoma úr einhverjum pólitískum samningaviðræðum.

Síðan vil ég ítreka það, virðulegi forseti, að þeir embættismenn sem komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar töldu það ekki vera ígildi þess að segja sig úr lögum við alþjóðasamfélagið að hafna slíkri beiðni um kvótahækkun.