140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:32]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Staða heimilanna á Íslandi er misjöfn, sum skulda ekkert, sum lítið, önnur meira og þó nokkuð mörg heimili skulda miklu meira en þau geta staðið undir. Við eigum að forgangsraða takmörkuðum fjármunum almenningssjóða til að hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálp að halda. Það er skilvísasta leiðin til að koma til móts við þær kröfur fólks um að fá aðstoð.

Ríkisstjórnin og Hagsmunasamtök heimilanna komu sér saman um að fagaðili úti í bæ setti saman skýrslu um hvert svigrúm bankanna væri til að koma til móts við óskir heimilanna. Í ljós hefur komið, samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar, að bankarnir hafa fullnýtt það svigrúm og gott betur. Hvorugur aðili getur neitað niðurstöðum skýrslunnar.

Mér finnst hins vegar áhugavert að heyra sjónarmið Framsóknarflokksins sem fram komu í þessari umræðu. Því ég spyr hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson: Vill flokkurinn áfram flatar niðurfærslur? Það kostar 200 milljarða kr. samkvæmt skýrslunni. (Gripið fram í.) Hvert á að sækja þann pening? Hyggst formaðurinn leggja til hækkun skatta? Ætlar hann að leggja til aukinn niðurskurð? Eða vill hann sækja þessa peninga í innstæðutryggingarnar? Ekki er hægt að sækja þann pening bótalaust, eins og fram kemur.

Nú þurfa framsóknarmenn að tala skýrt. Trúverðugleiki þeirra er undir.

Skoðun mín er sú, hæstv. forseti, að grunnvandamálið sem heimilin standa frammi fyrir er að það eru tvær myntir í landinu, annars vegar launakrónan í launaumslaginu og hins vegar verðtryggða krónan í gluggaumslaginu. Það var sveiflan á milli þessara tveggja mynta sem olli eignatjóni almennings haustið 2008 og ef við ráðumst ekki að rót þess vanda er ekkert því til fyrirstöðu að við bjóðum börnunum okkar upp á sama misgengi eftir 10 eða 15 ár, eins og við höfum upplifað nú. (Gripið fram í.)

Sumir stjórnmálamenn hafa lagt á það áherslu að framtíð íslenskra neytenda, íslenskra skuldara og íslenskra launamanna sé best borgið í myntsamstarfi við vinaþjóðir í Evrópu, aðrir stjórnmálamenn hafa ekki lagt fram neina skýra framtíðarsýn í þeim efnum (Forseti hringir.) og almenningur í landinu á það skilið að heyra það.