140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

málefni aldraðra og heilbrigðisþjónusta.

307. mál
[12:23]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu.

Frumvarpið tekur einungis til þess að sameina tvær vistunarmatsnefndir í eina nefnd. Nú sjá tvær nefndir um að meta þörf fólks á vistun á hjúkrunar- og dvalarrými, það er vistunarmatsnefnd fyrir dvalarrými annars vegar og fyrir hjúkrunarrými hins vegar. Nefndin sem metur þörf fyrir dvalarrými fellur undir lög um málefni aldraðra en hin sem metur þörf á hjúkrunarrými starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.

Markmiðið með lagafrumvarpinu er í fyrsta lagi að auðveldara sé fyrir aldrað fólk að sækja um dvöl á stofnun og gera óþarft að fólk þurfi fyrir fram að greina á milli hvort umsóknin taki til dvalarrýmis eða hjúkrunarrýmis. Fólk bíður oft lengi eftir dvalarrými og þegar röðin kemur að því hefur fólk oft þörf á hjúkrunarrými. Það auðveldar því fólki að sækja um vistun á stofnun að geta snúið sér til einnar nefndar.

Í öðru lagi er talið að matið sjálft verði betra með einni nefnd en með því er átt við að matið verði samfelldara og heildstæðara. Það breytir ekki því að matið felur í sér bæði mat á félagslegri þjónustu og heilbrigðisþjónustu sem hver einstaklingur hefur þörf á.

Í þriðja lagi mun stjórnsýslan verða einfaldari að því leyti að ein þriggja manna matsnefnd verður í hverju heilbrigðisumdæmi í stað tveggja nú og mun sjá um þetta nýja mat. Þó er ráðherra heimilt samkvæmt frumvarpinu að skipa sex manna matsnefnd í fjölmennum umdæmum. Nauðsyn var talin á þeirri undantekningu þar sem er um að ræða mikinn fjölda heimila og dvalar- og hjúkrunarrýma. Nánar verður kveðið á um þessa undantekningu í reglugerð samkvæmt því frumvarpi sem hér er lagt fram í drögum.

Þar sem verkefnum fækkar ekki verður kostnaðurinn sá sami eða að minnsta kosti svipaður. Nefndarmenn fá greitt fyrir hvert mat fyrir sig en launakostnaður starfsmanna og kostnaður við aðstöðu er greiddur sérstaklega. Ekki er áformað að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og verður þóknun fyrir hvert mat sú sama. Sá kostnaður er nú um 14 þús. kr. fyrir vistunarmat á dvalarrými en 34 þús. fyrir hvert mat á hjúkrunarrými. Áætlaður kostnaður í einni sameinaðri nefnd væri sambærilegur, þ.e. rúmlega 51 millj. kr.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa stutta frumvarps til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu og óska eftir því að málið fari til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd.