140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið.

[15:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ætlunin er ekki að dagskrárvald færist til stjórnar RÚV heldur að það verði áfram í höndum útvarpsstjóra þannig að það sé skýrt. Hins vegar er í gildandi lögum, ef ég man rétt, hlutverk stjórnar RÚV fyrst og fremst að fylgjast með meiri háttar ákvörðunum sem hafa áhrif á rekstur eða eitthvað slíkt orðalag. Þetta er tíundað aðeins nánar þannig að í raun og veru sé hlutverk stjórnar sambærilegt við almennt hlutverk stjórna í félögum eins og RÚV er.

Hvað varðar niðurskurð um 900 milljónir finnst mér nauðsynlegt að koma því á framfæri, því að þetta kemur fram í ársskýrslu Ríkisútvarpsins. Þar er hins vegar ekki miðað við rekstrarframlag til Ríkisútvarpsins þegar þessi tala er tekin upp heldur rekstrarframlag og það viðbótarframlag sem sett var inn í Ríkisútvarpið árið 2009 til að bæta eiginfjárstöðu þess og má ekki líta á sem rekstrarframlag, og það að tala um 900 millj. kr. niðurskurð finnst mér ansi hæpin tölfræði. Ég held að því verði að halda til haga að árið 2009 voru settar inn 600 milljónir eingöngu til að leiðrétta eiginfjárstöðu félagsins, (Forseti hringir.) sem var í raun og veru undanþága, m.a. frá ESA-reglum eða EFTA-reglum. Við verðum því að horfa til þess niðurskurðar sem orðið hefur á RÚV, sem vissulega hefur verið, út frá rekstrarframlaginu þannig að því sé til haga haldið.