140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta virðist sumpart ætla að sigla í sama farið og í fyrra að afstaða manna til ferðafrelsis hunda og katta fari eftir því hvort þeir eru með eða á móti Evrópusambandinu. Ég held að það sé ekki gáfulegur farvegur fyrir þetta. Það er út af fyrir sig eðlileg tilfinning að hafa áhyggjur af því þegar svona hindrunum er rutt úr vegi og einhver óáran geti fylgt því. Ég vil leggja áherslu á að engar af þeim áhyggjum sem hér hafa komið fram eru byggðar á vísindalegum rannsóknum.

Það sem helst er ástæða fyrir okkur til að hafa áhyggjur af er hundaæðið. Við erum ein af tíu þjóðum í heiminum sem erum laus við þann sjúkdóm. Rannsókn Bretanna sýnir einfaldlega að hættan sem þessum breytingum er samfara varðar eina komu af hverjum 10 milljón komum hunda til landsins.

Svo verðum við líka að gæta að því að vera samkvæm sjálfum okkur. Hæstv. utanríkisráðherra tók til máls í umræðunni áðan og kom með athyglisverða punkta. Þá er þess skemmst að minnast að við leyfðum diplómötum að flytja hunda og ketti til og frá Íslandi eins og þeim sýndist til ársins 1988. (Gripið fram í: Þetta var tekið af þeim þá.) Þangað til fyrir 20 árum síðan. Það er því ekki eins og hundar og kettir hafi ekki verið fluttir til og frá landinu án þess að hér hafi skapast stórfelld hætta.

Hér sigldu menn milli þessa lands og annarra öldum saman og auðvitað fluttu þeir ýmislegt með sér. Ætli þeir hafi ekki flutt gæludýrin sín með sér? Og er það ekki eins og hæstv. utanríkisráðherra benti á að við tökum á móti miklu af fuglum á hverju ári? Auðvitað er ekki hægt að útiloka að eitthvað kunni að berast með þeim.

En staðreyndin er einfaldlega sú að með þeirri tækniþekkingu sem við höfum og ef við (Forseti hringir.) gætum vel að eftirlitinu er hættan hverfandi af breytingum sem þessum. Það sýna einfaldlega þau áhættumöt sem gerð hafa verið og ég treysti að komi fram í faglegri vinnu nefndarinnar í málinu.