140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við fögnum í dag þriggja ára afmæli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Á þeim þremur árum hefur mikið áunnist. Við sjáum til dæmis að fjárlagahallinn hefur farið úr yfir 220 milljörðum kr. niður í 20 milljarða. Við búum við 3% hagvöxt að jafnaði á Íslandi, en margt er fram undan. Taka þarf auðlindaumræðuna og klára hana. Það þarf að skapa nýjan ramma um fiskveiðistjórn og það þarf að klára rammann um orkunýtingu. (Gripið fram í.)

En menn tala um stöðu heimilanna og versnandi hag þeirra vegna hækkandi bensínverðs. Við fræddumst um það á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun að innflutt matvæli hafa hækkað um 60% á undangengnum fimm árum. Þessa hækkun má rekja, eins og aðrar hækkanir, til verðs íslenskrar krónu gagnvart evru eða dollar. Stærstan hluta þeirra hækkana sem íslensk heimili verða fyrir í dag má rekja beint og óbeint til hinnar íslensku krónu. (Gripið fram í.) Þess vegna tel ég eitt það allra markverðasta sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir það að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að raunhæf kjarabót verði hér til lengri tíma fyrir íslensk heimili. Við þurfum að losna við verðbólgubölið, við þurfum að losna við verðtryggingarbölið og besta leiðin til þess er að fá nýja mynt (Gripið fram í.) með stöðugleika, lægri vaxtakostnaði, lægri afborgunum af húsnæðisskuldum, lægra matarverði — og lækkandi bensínverði. [Kliður í þingsal.] Það skynsamlegasta sem við getum gert til að takast á við þau djúpstæðu vandamál sem íslenskt efnahagskerfi býr við til lengri tíma litið er að losna við verðtrygginguna og verðbólgufjandann. Það gerum við með því að taka upp nýja mynt og þess vegna eiga alþingismenn allir að sameinast um að koma með okkur jafnaðarmönnum í þá vegferð að klára aðildarumsóknarferlið og taka upp nýja mynt til lengri tíma því að það er besta leiðin til að koma íslenskum heimilum til hjálpar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Jesús minn.)