140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

lagning raflína í jörð.

402. mál
[15:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu jákvætt og virðingarvert að skoðað sé með hlutlausum og opinskáum hætti hvað skynsamlegt sé í þessu máli. Ég vil þó koma þeim sjónarmiðum á framfæri að hvergi í heiminum hafa menn lagt línur í jörðu með hæstu spennunni öðruvísi en að yfirvöld hafi tekið um það ákvörðun. Fyrirtæki taka ekki slíka ákvörðun vegna þess að slíkar framkvæmdir hafa gríðarleg áhrif á raforkuverð í landinu.

Ég vil líka koma þeim sjónarmiðum á framfæri að eðlilegt er að tekið sé tillit til allra sjónarmiða. Það eru líka verulegir gallar við að grafa hluti í jörðu. Þeir verða ekki aftur upp teknir. Ef þeir bila getur tekið mjög langan tíma að komast að þeim og erfiðleikar eru bundnir því að lagfæra slíkt. Það þarf því að skoða alla þættina.