140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hann um ákveðna þætti sem hann kom inn á. Hv. þingmaður fagnaði því að fjármagn til almenningssamgangna væri aukið og nefndi sérstaklega höfuðborgarsvæðið í því sambandi.

Hv. þingmaður sagði að hann hefði miklar áhyggjur af fluginu. Hann sagði að flugsamgöngur væru almenningssamgöngur fyrir stóran hluta af landsbyggðinni, sem við erum algerlega sammála um. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að hann teldi að skattlagningin og skattpíningin á innanlandsflugið væri komin upp fyrir þolmörk, eins og hv. þingmaður orðaði það. Þar er ég algerlega sammála hv. þingmanni. Ég tel að í raun sé verið að skattleggja flugið þannig að það muni draga úr notkun þess ferðamáta, enda hafa komið ályktanir til að mynda frá bæjarstjórn Fjarðabyggðar þar sem bent var á þetta, þar hafa menn miklar áhyggjur þróun mála í innanlandsflugi. Einnig komu ábendingar frá bæjarstjórninni á Ísafirði og fleirum.

Því vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður ekki mikilvægt að málið verði skoðað sérstaklega í hv. umhverfis- og samgöngunefnd við afgreiðslu á samgönguáætlun þannig að menn detti ekki í pólitíska frasa og ræði skattbreytingar eins og þær eru gerðar í þingsal, heldur að fram fari fagleg, óháð vinna á vegum nefndarinnar sem skoði þessi mál sérstaklega, einkum í ljósi þeirra ábendinga sem komið hafa frá mjög ábyrgum sveitarstjórnarmönnum úti á landsbyggðinni? Kostnaðurinn við að fljúga er orðinn mjög hár, hv. þingmaður þekkir það eflaust betur en ég, vegna þeirra hækkana sem orðið hafa á flugmiðum innan lands. Getur hv. þingmaður tekið undir áskorun um að þessi mál verði skoðuð sérstaklega út frá þeim forsendum sem ég nefndi?