140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvers vegna voru tvær tilteknar framkvæmdir, Fróðárheiði og Öxi, teknar út eða öllu heldur settar miklu aftar í forgangsröðun en áður hafði verið? Þetta skýrist einfaldlega af hruninu, miklu minni peningar eru til ráðstöfunar og þá riðlast allt, þá er byrjað að raða upp á nýtt.

Það er mjög erfitt í rauninni að svara til um það hver gerir hvað, hver setur þessa framkvæmd hér eða þar. Það sem ég hef gert er að reyna að hlusta á sérfræðinga hjá Vegagerðinni og hlusta á sveitarstjórnarfólk. Það var reyndar ástæðan fyrir því að Öxi sem var komin nánast út úr öllum áætlunum fór inn aftur. Það var vegna harðfylgis sveitarstjórnarmanna fyrir austan að fá það inn. Það voru deilur um hvor kosturinn ætti að vera ofar, Norðfjarðargöng eða Öxi, og menn ekki alveg á eitt sáttir um hvað ætti að gera, en það var mikill þrýstingur á þetta frá heimamönnum að fá Öxi inn og þess vegna var það gert. Það er aftar á forgangslistanum en áður var en þetta er skýringin á því að allt riðlast þegar minni fjármunir eru til ráðstöfunar.

Varðandi sunnanverða Vestfirði og hvar það mál sé statt. Það er í rauninni statt í höndum Vegagerðarinnar sem er að kanna láglendiskosti, gera rannsóknir á fýsileika þess að fara undir Hjallana, gera göng þar, og síðan er verið að skoða þverun fjarða.