140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[12:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka aðeins upp lokaorð hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar um þá yfirlýsingu sem hann gaf hér að við Íslendingar ætluðum að gera alvarlegar athugasemdir við þá þjónustutilskipun varðandi póstdreifingu sem hefur verið mjög mikið í umræðunni í Noregi. Það er mikið fagnaðarefni að innanríkisráðherra skuli vera búinn að tilkynna utanríkisráðuneytinu að við Íslendingar ætlum að fylgja dæmi Norðmanna í þessu. Þetta er einmitt það sem kom fram í umræðum um skýrslu Norðmanna varðandi ETS-samninginn þar sem var fjallað um að Norðmenn ætluðu í auknum mæli að beita áhrifum sínum varðandi einstakar reglugerðir EES-samningsins. Þá var kallað eftir því af fjölmörgum þingmönnum og því beint til hæstv. utanríkisráðherra að við Íslendingar færum einmitt í auknum mæli að stilla okkar strengi saman með Norðmönnum í þeim málum sem þeir taka upp og við gætum þá tekið þau upp í sameiningu, því að öllum er ljóst að Noregur er töluvert stærra og valdameira land en Ísland. Ég fagna því að innanríkisráðherra hafi stigið þetta skref.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra, ef ég næ athygli hans, hvort hann telji ekki að full samstaða verði um það innan ríkisstjórnarinnar, að meðtöldum hæstv. utanríkisráðherra, að koma þeim skilaboðum til Norðmanna að við stillum saman strengi í þessu máli. Hvaða vinnu sér hann fyrir sér í framhaldinu af slíkri ákvörðun um að koma skilaboðum til Norðmanna og leita eftir samstarfi við þá? Hver verða næstu skref í þessu máli?