140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[12:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það bráðabirgðaákvæði sem hv. þingmaður vísar til varð aldrei að raunverulegu ákvæði vegna þess að lögin voru ekki samþykkt. En ég vil ekki snúa út úr hinu sem er meginmálið hjá hv. þingmanni, þ.e. sú spurning hvort við höfum skoðað þennan kost. Já, það gerðum við. Yfir þessu máli var legið sumarlangt og fram á haustið. Það fóru fram viðræður við aðila innan hlutaðeigandi stofnana og við skoðuðum þá þætti sem þarna er vikið að.

Það er ekkert launungarmál að ýmsir hafa viljað fara aðrar leiðir, efla nýja stofnun hafs og stranda, svo dæmi sé tekið, slá saman Siglingamálastofnun og Landhelgisgæslunni. Þetta eru sjónarmið sem fram hafa komið. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim og legg áherslu á að ekkert er því til fyrirstöðu að við skoðum síðan í framhaldinu, þegar við höfum gert þessar meginbreytingar, hvort taka eigi einhverja einstaka þætti sem heyra undir þessi svið og skjóta þeim undir önnur. En ég tel að við eigum að ráðast í þessar grundvallarbreytingar núna og skoða svo málið áfram.

Ég vek athygli á þessu sjónarmiði með hliðsjón af þeim breytingum sem verið er að gera í stjórnsýslunni almennt, innan stofnanakerfisins, ráðuneytanna. Nú er búið að sameina tvö ráðuneyti, þ.e. áður fjögur, dómsmála- og samgönguráðuneytið í eitt og síðan velferðarráðuneytið sem áður var félagsmála- og heilbrigðisráðuneytið. Við erum ekkert á endastöð þar í mannkynssögunni eða Íslandssögunni. Við eigum eftir að skoða hvort einstakir þættir sem heyra undir þessar stóru regnhlífar séu betur settar annars staðar. Þannig þarf stjórnsýslan öll að vera. Hún þarf að vera lifandi og svara kalli tímans og vera (Forseti hringir.) tilbúin að endurskoða sjálfa sig. Það erum við tilbúin að gera. Svar mitt við spurningu hv. þingmanns er þetta: Já, þessi mál voru skoðuð.