140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skörulega ræðu. Ég kem ekki hingað til að gera athugasemd við með hvaða hætti ræðan var flutt og þá staðreynd að hv. þingmaður hrasaði ofan í þá gryfju að flytja örlítinn part af sinni ræðu á brusselsku sem ég kalla svo. Hins vegar vil ég taka undir með hv. þingmanni þegar hann segir að brýnt sé að stjórnvöld velti því fyrir sér með hvaða hætti er hægt að flytja hluta af stjórnkerfinu út á land. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gera.

Þegar hv. þingmaður lítur yfir feril þess ráðherra sem hér stendur kemst hann að því að ég hef látið framkvæmdir fylgja þeim orðum mínum. Þegar ég var umhverfisráðherra flutti ég t.d. örlitla stofnun, veiðistjóraembættið til Akureyrar. Það var tilefni til hatrammra árása og ákveðnir stjórnmálaflokkar fluttu tillögu sem stappaði nærri vantrausti á mig sem ráðherra á þeim tíma. Flutt var tillaga um sérstaka rannsóknarnefnd á því hvernig tildrög voru að þeirri ákvörðun minni. Sömuleiðis hafði ég frumkvæði að því að Landmælingar Íslands voru fluttar á Akranes og átti þá í mjög miklum samningaviðræðum við þáverandi formann BSRB, sem ekki var kannski manna hrifnastur af því án þess að við förum lengra út í það. Sömuleiðis lagði ég líka drög að því að Skipulagsstofnun yrði flutt til Akureyrar. Ekki varð af því.

Ég vil segja að ég skil alveg þau rök sem eru fyrir málflutningi sem hv. þingmaður hafði uppi hér áðan. Sú tiltekna stofnun sem hann fjallaði um og er undir í umræðunni, það kann að vera að það eigi ekkert sérstaklega við hana. En almennt er ég þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin eigi að reyna að fylgja því eftir að koma hluta af störfum stjórnkerfis út á land. Sérstaklega gildir það þegar verið er að setja á laggir nýjar ríkisstofnanir. Það er kannski upplagðasta marktækifærið í þeim efnum að gera það þá.

Ég veit að það kann að hryggja hv. þingmann að það skuli vera hægt að finna mál sem við erum hjartanlega sammála um, en hér stend ég og get ekki annað.