140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

267. mál
[15:09]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að ræða um breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Felst hún í því að við bætist ný málsgrein sem mælir fyrir um heimild til þess að kæra úrskurð héraðsdóms um nálgunarbann og brottvísun af heimili til æðri dóms og er það vel.

Þar sem ætlunin er að breyta lögunum langar mig engu að síður að velta nokkrum hugleiðingum upp sem ég vona að sú nefnd sem fær málið til umfjöllunar taki afstöðu til.

Þann 10. júní í fyrra samþykkti Alþingi samhljóða breytingar á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Með brottvísun af heimili er átt við að heimilt er að uppfylltum tilteknum skilyrðum að vísa einstaklingi brott af heimili sínu eða dvalarstað og banna honum að snúa þangað aftur í tiltekinn tíma. Úrræði þetta sem jafnan er nefnt austurríska leiðin í daglegu tali sækir fyrirmynd sína til laga sem tóku gildi í Austurríki 1. maí 1997. Með breytingunni sýndi Alþingi vilja til að standa með þeim sem eru beittir ranglæti og viðurkenndi að réttur þeirra sem búa við ofbeldi á heimili sínu hljóti að vega þyngra en réttur þeirra sem beita ofbeldi.

Þá er komið að því sem vekur mig til umhugsunar. Í frétt Lóu Pind Aldísardóttur á visir.is 19. janúar sl. kom fram að einungis væri um tvö dæmi að ræða þar sem ofbeldismanni hefði verið vísað brott af heimili sínu á grundvelli þessarar breytingar. Á sama tíma, sömu sex mánuðum, hafa um 60 konur og þó nokkur börn með þeim leitað til Kvennaathvarfsins.

Önnur frétt birtist í Vikublaðinu á Akureyri 26. janúar þar sem kom fram að vegna mistaka við málsmeðferð hjá lögregluembættinu á Akureyri hefði dómari við héraðsdóm Norðurlands eystra ómerkt úrskurð lögreglu um að meintur ofbeldismaður á Akureyri sætti nálgunarbanni gagnvart eiginkonu sinni og börnum. Miðað við það sem kemur fram í efni fréttarinnar virðist dómurinn fyrst og fremst snúast um að fórnarlambið í þessu tilviki hafi ekki gert beina kröfu um nálgunarbannið. En í þeirri umræðu sem fór fram hér þegar við staðfestum að fara þessa leið var alveg ljóst að mínu mati að þess ætti ekki að vera þörf því að þegar um er að ræða manneskju sem hefur verið beitt ofbeldi á heimili sínu, jafnvel í lengri tíma, og er af þeim sökum niðurbrotin er staða hennar til að krefjast réttar síns alltaf veikari en ella. Þess vegna var opnað á þá leið að lögregluembættið eða sýslumaður á staðnum gæti farið fram á það fyrir hennar hönd að um tímabundið skeið færi ofbeldismaðurinn af heimilinu meðan verið væri að vinna í málinu.

Nú hef ég ekki úrskurðinn sjálfan undir höndum, einungis þennan fréttaflutning úr blaði sem segist hafa úrskurðinn undir höndum. Ég velti fyrir mér í ljósi þessara tveggja frétta núna í janúar, þar sem í ljós kemur að á sex mánuðum hafi þessu einungis verið beitt í tveim tilfellum og þar af klikkað í öðru, hvort við þurfum að endurskoða lögin eitthvað, hvort það sé eitthvað sem við getum skoðað í nefndinni og betrumbætt eða hvort við þurfum ef til vill að huga betur að framkvæmdinni, hvort einhver skortur sé á upplýsingum eða verklagsreglum lögreglu þegar komið er inn á heimili þar sem heimilisofbeldi er til staðar, af því að það segir sína sögu að þessu sé einungis beitt í tveim tilfellum þegar 60 konur hafa flúið heimili sitt vegna heimilisofbeldis. Það er ekki eitthvað sem fólk gerir að ástæðulausu — þau skref eru aldrei léttstíg.

Mig langaði bara að kasta þessu fram og ég vona að nefndin taki þetta til athugunar þegar breytingin verður rædd þar.