140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Í netmiðlum má sjá að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram hugmyndir um að lækka beri virðisaukaskatt á barnaföt. Ég vil koma hingað upp, nýta tækifærið og lýsa því yfir að ég tek jákvætt í þær hugmyndir. Ég tel að það gæti verið ákjósanleg leið til að koma til móts við barnmargar fjölskyldur í landinu. Mikill hluti viðskipta á þessu sviði fer fram erlendis og takist okkur að færa hann hingað til lands kemur það öllum til góða, verslunum, neytendum og ekki síður ríkisvaldinu enda mega það teljast forréttindi ákveðinna hópa að geta keypt barnaföt með ódýrari hætti erlendis.

Í raun og veru er um að ræða sömu nálgun og við ræddum í þessum þingsal hvað snertir vörugjöld og tolla. Með því að lækka vörugjöld og gera skattkerfið að því leytinu til einfaldara í framkvæmd, munum við, þrátt fyrir að sjá kannski fram á að tekjur muni minnka til skemmri tíma, til lengri tíma sjá mikinn ávinning í því að einfalda skattkerfið og koma til móts við til dæmis barnafjölskyldur og verslun, neytendur í heild og ríkissjóð.

Gætum að því, virðulegi þingheimur, að grundvöllur alls þess og allra þessara umræðna er að hér hefur náðst undraverður árangur í ríkisfjármálum. Hér hefur setið ríkisstjórn sem hefur tekið af mikilli festu á ríkisfjármálunum og staðið í baráttunni fyrir því að breyta skattkerfinu svo að við gætum haldið í þær tekjur sem við höfðum á sínum tíma og hefur þurft að ganga hart fram í niðurskurði. Þessi ríkisstjórn og þessi ábyrga fjármálastjórn hefur í raun og veru skapað grundvöll fyrir því að við getum farið að opna á þann möguleika að lækka skatta eða einfalda skattkerfið á næstu árum. Með árangri sínum hefur ríkisstjórnin í raun og veru skapað grundvöll fyrir lífskjarasókn heimila og neytenda í landinu. (Gripið fram í: 170 skattahækkanir.)