140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

sveitarstjórnarlög.

258. mál
[15:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svörin. Eitt af því sem gerðist í samfélaginu eftir hrunið var að fólk áttaði sig á því að ef það hefði enga leið, hvata eða ástæðu til að hafa áhrif á samfélag sitt þá lenti það gjarnan í sambærilegri stöðu og við lentum í árið 2008. Við slíkar aðstæður áttaði fólk sig á því hver ábyrgð þess væri og gæti verið. Það gerðist ekki aðeins hér á landi heldur líka víða um heim. Segja má að mesti lýðræðishallinn í stjórnsýslunni sé á sveitarstjórnarstiginu. Áhugaleysi þingmanna, sem margir hverjir hafa unnið á sveitarstjórnarstiginu, á þessum lýðræðisumbótum hefur valdið mér nokkurri furðu.

Mig langar að spyrja hv. þm. Þór Saari: Hver er ástæðan fyrir því að valdhafar vilja ekki opna á meira og opnara lýðræði í landinu okkar á þessu mikilvæga stigi til þess að þroska lýðræðisvitund þjóðarinnar? Þetta er í raun ótrúlegt tækifæri til að virkja fólk og gefa því tækifæri og ástæðu til að hafa áhrif í samfélagi sínu.