140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

sveitarstjórnarlög.

258. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Á næstsíðasta þingi þegar frumvarpið fór til samgöngunefndar voru þar sveitarstjórnarmenn sem unnið höfðu í sveitarstjórnum og þeir höfðu mikinn áhuga á málinu. Þeir bentu meðal annars á mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar væru í öllum nefndum og ráðum á vegum sveitarfélaganna en ekki varamenn eða Jói frændi í Holti af því að ekki tækist að manna nefndirnar. Það varð úr að málið var sent til nefndar sem fjallaði um sveitarstjórnarlögin, sem verið var að breyta á þeim tíma, með ósk um að það yrði tekið fyrir í þeirri vinnu.

Talsvert var um lýðræðisumbætur í frumvarpinu af hálfu innanríkisráðherra þegar málið kom fyrst inn í þingið en þeim var flestöllum slátrað og það eina sem eftir er af þeim í lögunum er einhvers konar gluggaskreyting sem er algjörlega marklaus. Það sem verra var var að menn afgreiddu málin og slátruðu fyrirbærum eins og íbúakosningu á síðustu metrunum í færeyska herberginu, bara nokkrum mínútum áður en frumvarpið var samþykkt sem lög frá þinginu. Það var dapurleg niðurstaða og hún var mjög ógegnsæ og hroðvirknislega unnin. Þetta frumvarp er einfaldlega tilraun til að leiðrétta þá meðferð sem var að mínu mati forkastanleg, en það er líka tilraun til að gera lýðræði í sveitarfélögum á Íslandi sambærilegt því sem þekkist í öllum nágrannalöndum okkar, ekki bara á Norðurlöndunum heldur alls staðar annars staðar í Vestur-Evrópu. Við erum langt á eftir öðrum löndum í Evrópu hvað þetta varðar. Því þurfum við að breyta, það er nauðsynlegt, það er ekki hægt að búa við að fjórir einstaklingar í einhverri sveitarstjórn ráði öllu um framtíð sveitarfélags síns. Það er ómögulegt fyrirkomulag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)