140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

áhrif banns við formerkingum á verðlag.

445. mál
[15:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Úr því að ég varð of seinn í umræðuna hér á undan vil ég bara segja að ég held að það sé mjög mikilvægt að þeir sem missa sig í stóryrðum úr ræðustóli Alþingis komi hingað upp og biðjist afsökunar, telji þeir ástæðu til þess.

Að öðru leyti vík ég að dagskrármálinu. Þannig er mál með vexti að á síðasta ári komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að ástæða væri til að banna það sem kallað hefur verið forverðmerkingar á afurðum nokkurra kjötvinnslufyrirtækja. Þessar forverðmerkingar eru þannig að tiltekin fyrirtæki hafa merkt kílóverð og verð á tilteknum afurðum sem síðan hefur verið dreift í verslunum og það hefur auðveldað þeim verslunum að gefa afslátt af þessum forverðmerktu vörum. Sem neytandi vil ég segja að mér fannst það fyrirkomulag yfirleitt ágætt, að geta annars vegar séð kílóverð, verð á tilteknum vörum og geta síðan með auðveldum hætti reiknað út afsláttinn sem tilteknar verslanir buðu. Þær sýndu reyndar endanlegt verð með verðmerkingum sínum. Það taldi Samkeppniseftirlitið ekki eðlilegt fyrirkomulag og úrskurðaði þar um, sektaði þessi fyrirtæki og bannaði þeim að hafa það fyrirkomulag á.

Eins og við sjáum er fyrirkomulagið orðið breytt í verslununum þannig að verðmerkingar sjást ekki á vöruflokkunum með sama hætti og áður. Hinar stærri verslanir hafa lagt í mikla fjárfestingu á svokölluðum skönnum sem fólk getur notað sér. Það getur borið strikamerkingar af þessum vörum undir skannana og þá blasa við upplýsingar um kílóverð, verð og þess háttar. Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins. Allt var það gert í þágu aukinnar samkeppni, að minnsta kosti var það tilefni þess að breytingin var gerð og ætti, get ég ímyndað mér, að hafa það að markmiði að auka samkeppni og lækka vöruverð. Fyrirspurnin sem hlýtur að koma fram er hvort lagt hafi verið mat á það núna hvort bann við formerkingum á verði afurða frá kjötmiðstöðvum hafi leitt til lækkunar á verðlagi.

Ég spyr líka hvort fyrirkomulagið hafi síðan orðið til þess að auka kostnað, einkanlega hjá minni verslunum, til dæmis í fjárfestingum í slíkum búnaði. Það er örugglega ekki hagkvæmt fyrir minni verslanir sem þurfa þá að leggja í fjárfestingu án þess að það skili miklu til baka vegna hinnar litlu veltu. Þess vegna vaknar upp sú spurning hvort þarna sé verið að búa til eins konar samkeppnislegt forskot fyrir stærri verslanirnar á kostnað hinna minni.