140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma inn í þá umræðu sem átt hefur sér stað í dag um að Evrópusambandið sé að blanda sér mjög í innanríkismál landsins sem er alvarlegt að mínu mati. Við vitum að nú þegar liggur fyrir beiðni frá hæstv. utanríkisráðherra um að Alþingi samþykki 5 þús. milljóna styrk. Alþingi sjálft þarf að samþykkja þá fjárveitingu, fyrr er ekki hægt að greiða hana út. En það gerðist í fjárlagavinnunni fyrir jólin að 596 milljónir af IPA-styrkjunum voru teknar út úr þessari aðstoð sem fyrirframgreiðsla. Ég ætla nú ekki að nefna IPA-styrkina því nafni sem mig langar helst til, en um ákveðna tegund af fjáraustri við þjóð er að ræða sem stundum er kennd við lönd sem mafía starfar í.

Það sem skiptir máli í þessu er að hæstv. utanríkisráðherra hafði ekki hugmynd um að búið væri að taka út þessa fyrirframgreiðslu en nú er hún komin á fjárlög ríkisins án þess að heimild sé fyrir því frá þinginu.

Mig langar líka að minnast á það í þessari umræðu að ég fékk svör við tveimur spurningum í gær, annars vegar um Evrópustofu og hins vegar um manntal. Það kemur fram að Evrópusambandið er að sturta yfir okkur 226 milljónum vegna Evrópustofu, og svo er skemmtilegt að minnast á það hér vegna þess að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gumaði af því hvað starf Hagstofunnar væri gott og hvað það kæmu hagstæður tölur frá henni, að í svarinu frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem ég fékk í gær kemur fram að Evrópusambandið er að styrkja Hagstofuna um 180 milljónir, (Gripið fram í.) akkúrat til að telja Íslendinga, [Hlátur í þingsal.] til að telja íbúðir og telja hitt og þetta. (Gripið fram í.) Þetta er ekkert annað en inngrip í (Forseti hringir.) innanríkismál Íslendinga og hér standa og sitja hv. þingmenn (Gripið fram í.) Samfylkingarinnar og hlæja að þessum upplýsingum eins og fuglar í bjargi. [Hlátur í þingsal.]