140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég leyfi mér að gera athugasemd við það háttalag hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að taka reikningsaðferð úr þessari skýrslu og gera hana að stefnu stjórnvalda í rammaáætlun. Það er mjög sérkennilegt. Ég tel að þingmaðurinn hafi í raun og veru setið of lengi í þingsölum til að leyfa sér svo billeg trikk.

Það sem um er að ræða er að orkustefnunefndin reynir að gera sér grein fyrir því hver raforkugeta landsins sé. Það er algjört grundvallarmál í þessari vinnu, eins og ég kem inn á í ræðu minni á eftir. Nefndin notar til þess tölur sem koma úr rammaáætlunarvinnunni, reyndar ekki fyrstu skýrslunni heldur birtust þær í umhverfismatinu vegna þess að það þurfti að endurreikna fyrstu tölurnar eins og ég kem vonandi inn á hér á eftir. Svo leyfir orkustefnunefndin sér að taka biðflokkstöluna sem er sumsé, eins og hv. þingmaður veit, rétt rúm 9 teravött og skipta henni nokkuð glannalega til helminga, sjálfsagt vegna þess að það er ekki nokkur vegur að áætla hvað af þessum virkjanakostum í biðflokki lendir að lokum í orkunýtingu og hverjir fara í vernd. Það er á þessum grunni sem tölurnar neðst í töflunni um raforkugetu í helmingi biðflokks koma fram og nema þó ekki nema 4,6 teravattstundum sem er um það bil ein Kárahnjúkavirkjun. Munurinn er því ekki mjög mikill.

Ég gagnrýni þingmanninn fyrir þetta og bið hann að gæta að sér og taka mark á þessari fínu skýrslu og þó að hann sé ekki sammála öllum þeim stefnumiðum sem koma fram í henni er óþarfi að efast um grundvöllinn og algjör óþarfi að leggja reikningsforsendur hér í annarra munn sem (Forseti hringir.) pólitíska stefnu.