140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hér hefur verið komið inn á mannréttindamál og það er vel. Ég ætla hins vegar að taka annan vinkil sem tengist jafnréttismálum og mannréttindamálum og var meðal annars í frétt á mbl.is þar sem bent var á óheillaþróun í fæðingarorlofsmálum sem við í stjórnarandstöðunni höfum margoft ítrekað. Í þrjú ár hefur ekki verið gert neitt í þessum málum. Menn hafa vitað og spáð þeirri óheillaþróun að feður mundu í auknum mæli vera meira úti á vinnumarkaðnum og taka minna fæðingarorlof.

Það liggur alveg ljóst fyrir að frumvarpið sem varð að lögum 2001 varðandi fæðingarorlof gerði okkur Íslendinga að fyrirmyndum annarra þjóða þegar kom að fæðingarorlofsmálum og ekki síst jafnréttismálum. Þetta var eitt stærsta jafnréttismál sem hefur verið samþykkt á síðari tímum. En á tímum vinstri stjórnarinnar hefur ríkisstjórnin ákveðið að forgangsraða með öðrum hætti. Gott og vel. Formaður Samfylkingarinnar boðaði á landsfundi að það ætti að gera eitthvað í málunum. Hvað hefur gerst síðan? Í hvaða vinnu hefur verið farið?

Ég bendi á að feður nýta sér um 30 dögum styttra fæðingarorlof en fyrir hrun. Hvað þýðir það? Það er í samhengi við að launamunur kynjanna hefur aukist frá 2008. Ég set launamuninn í beint samhengi við fæðingarorlofið. Við verðum að horfa til lengri tíma, við getum ekki verið að koma fram með einhverja áætlun korteri fyrir kosningar. Stjórnmálaflokkarnir sem stóðu allir á sínum tíma að samþykkt fæðingarorlofslaganna verða að koma með raunhæfa ályktun og markmið um það hvernig við byggjum upp fæðingarorlofið að nýju. Þetta er eitt stærsta jafnréttismál síðari tíma. Við erum að klúðra því af því að við erum ekki að hugsa um það, þ.e. ríkisstjórnin er ekki að hugsa um málið eins og hún ætti að gera þar sem einmitt kona er í forustu.