140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég vil líka tjá mig um stjórnarskrármál. Það hefur að ég held alltaf verið á dagskránni á lýðveldistímanum að endurskoða stjórnarskrána, að Íslendingar skrifi sjálfir sína stjórnarskrá, vegna þess að sú stjórnarskrá sem við búum við er í rauninni tekin upp annars staðar frá. Þetta hefur alltaf verið á dagskrá en aldrei tekist þangað til ákveðið var að fara þá leið hér í þinginu að útvista þessu verkefni til þjóðarinnar með ákveðnum hætti, að kalla saman slembiúrtak í Laugardalshöll. Það tókst ágætlega. Skipuð var nefnd sem fór mjög ítarlega yfir allar tillögur og allt sem rætt var á þeim fundi, kosið var stjórnlagaþing sem síðan varð stjórnlagaráð, gott og vel, það kom saman og vann úr þessum tillögum. Þetta var tveggja ára ferli.

Núna, þegar ég sé í hvaða farveg þetta mál er komið í þinginu, sýnist mér koma fram á sjónarsviðið nákvæmlega röksemdirnar fyrir því að þessi leið var farin. Þingið getur ekki fjallað um stjórnarskrármál, hefur varla getað það nema að mjög takmörkuðu leyti allan lýðveldistímann. Núna er hálft þingið, sýnist mér, að uppteknum hætti, sem það hefur alltaf sýnt allan lýðveldistímann, að reyna að stinga framkomnum tillögum að nýrri íslenskri stjórnarskrá ofan í skúffu. Þetta er klassísk barátta, hún fer hér fram af fullum krafti og við sem styðjum þetta lýðræðisferli og höfum alltaf gert verðum bara að taka hana. Þetta er stjórnarskrá sem var samin með ákveðnum hætti, í gegnum ákveðið ferli sem við ákváðum, af þjóðinni og það er algjört lykilatriði, og það er mjög mikilvæg barátta sem hér á sér stað (Forseti hringir.) og hefur lengi átt sér stað í þessum sal að þjóðin eigi síðan lokaorðið um þá stjórnarskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)