140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

framtíð innanlandsflugsins.

[16:40]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að ræða þetta mál á yfirvegaðan hátt. Það er gríðarlega þýðingarmikið. Ég þakka hv. málshefjanda kærlega fyrir að taka það hér upp.

Ég var á fundi í Vestmannaeyjum fyrir ekki svo ýkja löngu spurður að því hvort til greina kæmi að ríkið mundi að nýju styrkja þá flugleið. Það er okkur ekki heimilt að gera vegna þess að ekki er markaðsbrestur á þeirri leið, þ.e. það er einkaaðili sem er tilbúinn til að sinna þessari flugleið á viðskiptalegum forsendum og hafa af því einhverjar tekjur. Ástæða þeirrar spurningar sem þarna var vakin upp er sú að það blasir við að mjög dýrt er orðið að ferðast á Íslandi, hvort sem er í flugi eða með bifreiðum, enda sér maður að fólk er í auknum mæli, sérstaklega kannski ungt fólk, farið að hópast saman í bifreiðar þegar verið er að fara á milli landshluta, úr því málefni ungra námsmanna eru tekin hér upp.

Að þessu sögðu vil ég undirstrika þá skoðun mína að auðvitað þurfa markaðslegar forsendur að vera fyrir innanlandsflugi á Íslandi. En stjórnvöld eiga að sjálfsögðu að vera vakandi fyrir þeim möguleikum sem þar eru fyrir hendi, t.d. með því að auka eins og hægt er möguleika flugvalla á tekjuöflun. Ég nefni til dæmis flugvöll eins og Höfn í Hornafirði sem ætti að geta tekið við erlendum ferðamönnum og flugvélum beint þangað og beint inn í þjóðgarðinn. Það væri mjög til framfara.

Ég vil segja varðandi staðsetningu flugvallarins hér í Reykjavík — það er ekki mikill tími sem maður fær til þessarar umræðu — að auðvitað eru skoðanir skiptar um það í öllum flokkum, en það væri mikill kostnaðarauki fyrir landsbyggðarfólk ef flugvöllurinn yrði færður þaðan sem hann er núna. Það væri að mínu viti ekki mikið framfaraspor.

Ef hann yrði á annað borð færður (Forseti hringir.) þá á að fara með hann til Keflavíkur, þar er aðstaða fyrir hendi. En hann á að vera þar sem hann er núna. Það væri best (Forseti hringir.) til framfara.