140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

eignarhald á bönkunum.

[10:56]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Kannski ein athugasemd áður en ég kem með fyrirspurnina. Ef eitthvað hefur bjargað íslensku atvinnulífi er það nú krónan og flestir eru sammála um það. Þessi athugasemd hæstv. forsætisráðherra var því í hæsta lagi stórundarleg.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í eignarhald á íslenskum bönkum. Þeir voru í rauninni einkavæddir hér korteri fyrir jólahlé árið 2009 án allrar umræðu. Við í stjórnarandstöðunni og Framsóknarflokknum höfum velt þessu hér upp nokkrum sinnum en aldrei fengið skýr svör um. Þetta skiptir íslenska þjóð gríðarlegu miklu máli. Við sitjum uppi með þrjá stóra banka, restin af fjármálakerfinu er í vanda og ekkert útséð um það hvort við náum að bjarga sparisjóðakerfinu.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig hún sjái fyrir sér eignarhaldið í framtíðinni. Verður þetta upplýst? Verður komið einhverju skikki á þetta? Mjög margir eiga allt sitt undir bönkunum, skulda þar gríðarlega mikið, ég ætla ekki að fara út í vandræði heimilanna og getuleysi ríkisstjórnarinnar til að leysa þau mál, en ég mundi vilja fá skýr svör hvað þetta varðar frá hæstv. forsætisráðherra.