140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[11:27]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá lyktir þessa máls í atkvæðagreiðslu. Mér var falið að vera talsmaður þess í atvinnuveganefnd en enginn flutningsmanna á sæti þar. Það starf tókst ágætlega. Það var góð samvinna í nefndinni og það var góð samvinna við landbúnaðarráðuneytið, Matvælastofnun, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Eru allir á einu máli um að ljúka því á þann veg sem gert er hér og þingsályktuninni verður svo hrint í framkvæmd með breytingu á matvælalögum sem átti líka að afgreiða í dag en var tekið af dagskrá og frestað fram á þriðjudag vegna þess mikilvæga dóms sem féll í gær.

Lúkning þessa máls verður væntanlega strax eftir helgi með því að Íslendingar taki upp norræna hollustumerkið Skráargatið. Ég hvet þingmenn til að lesa greinargerð Matvælastofnunar sem birtist í nefndarálitinu. Þar koma fram margar mikilvægar upplýsingar um þetta mál, m.a. það að Norðmenn borða 48 milljónir frosinna pítsa á hverju ári. [Hlátur í þingsal.]