140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

dómur Hæstaréttar um gjaldeyrislán, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[12:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að í þessu stóra máli sem varðar alla landsmenn með einum eða öðrum hætti verður sá fáheyrði atburður að hæstv. forsætisráðherra tekur ekki þátt í umræðunni, sjálfur verkstjórinn sem stýrði þessu og sem gerir það að verkum að við erum í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Stór orð hafa fallið úr þessum ræðustól af minna tilefni.

Niðurstaðan í þessum dómi er einfaldlega sú að skuldari sem hefur greitt aftur í tímann vaxtamuninn á milli gengistryggðu vaxtakjaranna og vaxta samkvæmt 4. gr. vaxtalaga á endurkröfurétt sem því nemur á hendur viðtakanda þeirrar greiðslu. Fleira sem liggur fyrir í tengslum við þennan dóm er að það er talið að þeir sem greiddu í góðri trú hafi verið í rétti. Það er talið að fjármálafyrirtækin hefðu átt að vita betur og eigi að bera skaðann og það er ekki gerður greinarmunur á lögaðilum og einstaklingum. Þetta mun örugglega þurfa að skoðast í samhengi við fleiri hluti, t.d. reikniregluna varðandi höfuðstólinn. Ég hef ekki tíma til að fara í það hér, en það liggur fyrir frumvarp í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem farið er fram á endurskoðun þess hluta þeirra laga og annars sem því viðkemur. Er ég 1. flutningsmaður að því og við sjálfstæðismenn höfum sömuleiðis flutt frumvarp sem miðar að því að flýta dómum þannig að við værum ekki í þeirri stöðu löngu síðar að fá dóm eins og raun ber nú vitni.

Það sem við getum lært af þessu er að þetta eru einstaklega illa unnin lög sem voru samþykkt hér með miklum hraða í lok árs 2010. Það er fullkomlega galinn málflutningur hjá hv. þingmanni stjórnarliða að segja: Heyrðu, við gátum gert miklu verr, við hefðum getað gert miklu verr. Hvers konar rökstuðningur er það, eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar? Ég treysti hv. þingmanni stjórnarliða til að gera miklu verr í mörgum málum en það eru ekki rök fyrir því að ganga svona fram.

Eitt af stóru áhyggjuefnunum núna er að það hefur komið fram að ekki voru gerðir neinir fyrirvarar í samningum á milli gömlu og nýju bankanna varðandi dómsmál eins og þessi. Einhver hefði kallað vanræksla af minna tilefni. Svo sannarlega vitum við ekki hvaða afleiðingar þetta mun hafa þegar allt er komið fram í tengslum við bankana. Ég vil fá að lesa orðrétt úr tilmælum Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja vegna óskuldbindandi gengistryggðra ákvæða 30. júní 2010. Þar segir, með leyfi forseta:

„Tilmælin byggja á þeirri afstöðu fyrrgreindra eftirlitsstofnana að hvorki séu lagaleg né efnahagsleg rök fyrir því að vaxtakjör sem áður tóku mið af erlendum millibankavöxtum haldist áfram eftir að tenging þess hluta höfuðstólsins sem bar slíka vexti við viðkomandi gjaldmiðil hefur verið rofin með dómi Hæstaréttar.“

Svo kemur, virðulegi forseti:

„Eftirlitsstofnanirnar telja að slík túlkun á niðurstöðu Hæstaréttar, væri hún framkvæmd til hins ýtrasta, fæli í sér svo stórt högg á eigið fé fjármálafyrirtækja að ríkissjóður þyrfti að leggja þeim til umtalsvert nýtt fé. Það er kostnaður sem aðrir samfélagsþegnar bera á endanum.“

Nú hefur verið dæmt að það þurfi að fara þá leið sem eftirlitsstofnanir á þessum tíma sögðu að væri svo þungt högg að til þyrftu að koma inngrip og fjárútlát ríkisins. Það kemur á óvart hvað ráðuneyti og eftirlitsstofnanir eru illa undir þetta mál búin (Forseti hringir.) og það kom skýrt fram á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég hef sömuleiðis miklar áhyggjur af því fólki og þeim fyrirtækjum sem eru núna búin missa eigur sínar vegna þess (Forseti hringir.) að þessi lög voru jafnmeingölluð og raun ber vitni.