140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[17:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örstutt yfir það mál sem við ræðum hér, þ.e. skýrslu fjármálaráðherra. Að mínu viti er mjög gott að skýrslan sé komin fram en ég tek hins vegar undir það að full ástæða er til að skoða þessi mál áfram. Ég held að menn eigi að nýta sér þá vinnu sem unnin hefur verið í stað þess að finna upp hjólið til að spara tíma og pappír.

Að mínu viti er þessi skýrsla fyrst og fremst áfellisdómur yfir stjórnum sjóðanna, hvernig þar var haldið um hlutina, en ekki endilega yfir kerfinu sjálfu eða yfir því hvernig það er byggt upp. Það er þó full ástæða til að skoða það samhliða öðru.

Ljóst er að í skýrslunni er gagnrýnt hvernig umhverfi einstakra stjórna var, hvernig stjórnir sjóðanna höfðu yfirsýn og yfirlit með fjárfestingum og slíku og af því verðum við að sjálfsögðu að læra, menn verða að hlusta á þær viðvaranir og tillögur sem fram koma í skýrslunni.

Við eigum líka að vera óhrædd við að ræða þær spurningar sem settar eru fram og þær vangaveltur sem uppi eru. Við eigum að nota tækifærið sem þessi skýrsla og kannski einhverjar fleiri sem verða skrifaðar, gefa okkur til að ræða þessa hluti á jákvæðan hátt. Við verðum að nýta tækifærin til að gera þær breytingar sem við teljum að séu þarfar. Þá gef ég mér að menn muni ná saman um einhverjar breytingar. Verði niðurstaðan hins vegar sú að engu þurfi að breyta stendur það sjálfsagt.

Við verðum að þora að ræða opinskátt um þessa mikilvægu sjóði okkar. Ég vil ekki fara úr ræðustól án þess að lýsa því yfir að lífeyrissjóðirnir eru eitt það mikilvægasta í samfélagi okkar. Þeir eru stuðpúðinn eða það sem sér fyrir okkur þegar fram í sækir. Ég tel hins vegar óásættanlegt að menn tali fyrir því að þetta eigi bara að vera óbreytt, hvort sem þeir segja það úr þessum ræðustól eða úti í þjóðfélaginu. Ég er ekki sammála því, ég vil gera ákveðnar breytingar. Ég get nefnt tvær breytingar sem ég vil sjá á kerfinu öllu, í fyrsta lagi vil ég sjá að almennir sjóðfélagar eigi meiri aðgang að því að kjósa beint í stjórnir, hvort sem það er öll stjórnin eða hluti hennar, það er eitthvað sem þarf bara að ræða. Mér finnst að það þurfi að endurskoða það.

Það er í samræmi við þær kröfur sem gerðar hafa verið við og við, margir þingmenn tala mjög fjálglega um persónukosningar, beint lýðræði og ég veit ekki hvað og hvað. Það hlýtur þá líka að eiga við í þessu tilviki.

Við verðum líka að þora að ræða þann mismun sem komið hefur fram á milli opinbera kerfisins og almenna kerfisins. Ég nefndi það í andsvari í dag, minnir mig, ég hef að minnsta kosti nefnt það í þessum ræðustól, að mér finnst ekki eðlilegur munurinn þegar kemur að áföllum eins og við urðum fyrir að þeir sem fá greitt úr opinbera kerfinu fái bara sína tölu áfram meðan upphæðin er skert hjá hinum. Ég tek hins vegar undir með þeim sem segja að við verðum þá að jafna þennan mun með sanngjörnum hætti. (Gripið fram í.) Hæstv. innanríkisráðherra talaði um að jafna réttindin og ef það er hægt eigum við að sjálfsögðu að skoða það.

Grundvallarhugsun mín í málinu er að þessu þurfi að breyta með einhverjum hætti, það þarf að jafna þennan mun.

Búið er að tala um froðu, að þeir peningar sem tapast séu froða. Ég velti þá fyrir mér hvort þær háu tölur sem við sjáum af tapi bankanna og einstakra fyrirtækja, heilu atvinnugreinanna, séu froðutap en ekki raunverulegt tap. Eigum við þá að breyta allri umræðunni? Eigum við að fara til baka og skoða hvað menn hafa sagt um þessi fyrirtæki, um það sem þar var stundað?

Mér finnst að þeir séu of fáir sem mest hafa um það að segja hvernig samsetningin er á stjórnum og tengslum. Ég tel að stækka þurfi þann hóp sem kemur að stjórnun og ákvörðunum hjá lífeyrissjóðunum, líkt og við höfum talað um varðandi fjármálafyrirtækin og stór fyrirtæki á Íslandi.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með afstöðu aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna, sérstaklega árið 2009 þegar byrjað var að ræða möguleika og mikilvægi þess að leiðrétta lán heimilanna sem stökkbreyttust á einni nóttu í bankahruninu. Það urðu mér mikil vonbrigði hvernig þessir menn brugðust við því. Sjálfur sat ég nokkra fundi með fulltrúum þessara aðila í Þjóðmenningarhúsinu og annars staðar og ég verð að segja að það voru mikil vonbrigði að heyra nálgun þeirra á vandamálið og lítill skilningur var á vandanum.

Meginpunktur minn er að það er margt gagnrýnisvert við starfsemi lífeyrissjóðanna eins og fram kemur í þessari skýrslu, það þýðir samt ekki að það sé allt ómögulegt og að við eigum að rústa það kerfi sem við höfum verið með, en ég bið þá sem vilja verja lífeyrissjóðakerfið, hvort sem það er almenni hlutinn eða opinberi hlutinn, að stíga aðeins til hliðar og gefa færi á því að hlutirnir séu endurskoðaðir. Það er mjög mikilvægt þegar um svona mikilvægar stofnanir er að ræða. En það þarf að gera yfirvegað og af nákvæmni en um leið opinskátt.

Það er það meginsjónarmið sem ég vildi koma á framfæri. Skýrslan er hins vegar góð að því leyti að hún dregur upp ákveðnar myndir sem við höfum svo sem séð að hluta til úr annarri skýrslu um hrunið, stóru skýrslunni okkar, en hér er skoðaður ákveðinn hluti þess mikla hruns sem hér varð. Sjálfsagt er að skoða ýmsa aðra hluti en ég hvet til þess að vinnan í kringum skýrsluna verði nýtt með einhverjum hætti ef menn ætla að fara að skoða þessi mál nánar.