140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[13:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þetta er í grundvallaratriðum sama viðhorfið og hugmyndin mætti þegar hún kom fram fyrir tæplega tveimur árum, að þetta mætti svo sem skoða, þetta væri ágætistillaga en eflaust engin þörf á að flýta málinu eitthvað sérstaklega og hvort ekki væri hægt að ganga út frá því að dómstólarnir mundu flýta málum o.s.frv.

Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að nú stöndum við frammi fyrir því tæplega tveimur árum síðar að okkur skortir fordæmin. Hugmyndin gengur út á að við tökum af skarið með að þessi mál skuli fá flýtimeðferð hjá öllum dómstólum í landinu, það verði ekki háð því viðhorfi sem málin mæta hjá viðkomandi dómstjóra eða dómara o.s.frv. heldur að við tökum af skarið með þetta. Ég held að það sé afar brýnt og ég trúi ekki öðru en að við getum náð góðri samstöðu á þinginu um að þessi mikilvægu mál fari í algeran forgang í dómskerfinu.