140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:27]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum umhverfi sjávarútvegs og óvissuna sem er í því umhverfi og hefur alla tíð verið. Fiskveiðar á Íslandi hafa alla tíð verið óvissuatvinnugrein. Sú óvissa sem er hins vegar uppi í sjávarútvegi núna er ekki stjórnmálamönnum eða stjórnmálunum að kenna. Hún er sjávarútveginum að kenna. Það hefur aldrei verið sátt um þetta kerfi þar sem hópur manna fær gríðarlega verðmæta auðlind afhenta með óeðlilegum hætti og aldrei verður sátt um slíkt kerfi. Þannig að ef menn biðja um áframhald á því, eru þeir að biðja um áframhaldandi óvissu.

Það er oft erfitt að útdeila aðgengi að náttúruauðlindum svo vel sé með svokölluðum markaðslausnum sem alla jafna leiða til hagkvæmustu niðurstöðu. Svo er hins vegar ekki um sjávarútveginn og það er hægðarleikur að ná sátt um kerfið með uppboðum aflaheimilda hvers árs þar sem fjárfestingar í skipum nytu sérmeðferðar og þar sem menn gætu gert framvirka samninga um kaup á aflaheimildum nokkur ár fram í tímann. Slíkt er alþekkt í viðskiptum og sjávarútvegur á Íslandi á ekki að vera utan við slíkt fyrirkomulag.

Ekki er heldur nóg að ræða góða afkomu sjávarútvegsins í dag eins og menn hafa gert hér. Góð afkoma sjávarútvegsins í dag byggir fyrst og fremst á hruni krónunnar. Hún byggir ekki á meiri afla — fyrir utan auknar makrílveiðar er að öðru leyti um litla verðmætaaukningu að ræða þegar litið er fram hjá þeim gengismun sem kom til vegna falls krónunnar. Slíkt fyrirbæri er tímabundið og þess vegna er æskilegt að ræða málin út frá langtímasjónarmiðum þar sem næst langtímasátt um kerfið en ekki út frá tímabundnum gengisfellingum. Við höfum áratugareynslu af því að þær valda einfaldlega áframhaldandi óvissu.