140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[14:50]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill í tilefni þessara orða taka fram að hann gerir ekki athugasemdir við breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Vissulega er það svo að mörk eru fyrir því hvernig lagafrumvörpum og ályktunartillögum er breytt í meðförum þingsins og að gerbreyting frumvarpa og þingsályktunartillagna er óheimil. Það veldur því ekki að umræða geti ekki farið fram heldur því hvort fullnægt er skilyrðum hvort um er að ræða tvær umræður eða þrjár.

Um þetta hafa skapast venjur á Alþingi. Í samræmi við þær telur forseti ekki um gerbreytingu að ræða í skilningi þingskapa og bendir meðal annars á í því sambandi að heiti tillögunnar er óbreytt.

Um mat á kostnaði, verði tillagan samþykkt, getur forseti ekki sagt að svo stöddu. Það er nefndarinnar að leggja mat á það. Hins vegar vill forseti benda á að ákvæði þingskapa um kostnaðarmat er gamalt og framkvæmd þess hefur ekki verið fyllilega í samræmi við orðanna hljóðan. Ekki hafa alltaf verið tök á að meta kostnað og erfiðlega gengið að fá aðstoð við það. Forseta er hins vegar kunnugt um að nefndin spurðist fyrir um mat á kostnaði hjá skrifstofunni og við væntanlegan fund stjórnlagaráðs og ég vænti þess að framsögumaður meiri hluta nefndarinnar skýri frá því í ræðu sinni á eftir.