140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[15:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst menn taka þessari umræðu af dálítið mikilli léttúð. Hér er verið að tala um sjálfa stjórnarskrána og ræða um afurð úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og þá vil ég segja bara eins og er: Geta menn virkilega ekki gert betur en þetta? Er þetta það eina sem menn geta lagt fram með sér inn í þessa umræðu þegar við ræðum um sjálf grundvallarlög íslenska lýðveldisins og það er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem er að störfum?

Það liggur fyrir að þessi tillaga er nánast ekki að neinu leyti í samræmi við þá tillögu sem upphaflega var lögð fram (Gripið fram í: Það er rangt.) nema að einu leyti eins og liggur fyrir í úrskurði forseta þingsins: Fyrirsögnin er sú sama. (Gripið fram í: Já.) Það sameinar þessar tvær tillögur. Þannig liggur algjörlega fyrir að þetta mál er á mjög gráu svæði, örugglega steingráu svæði, og einnig liggur fyrir að samkvæmt þingsköpum á að leggja fram prentað kostnaðarmat. Þetta kostnaðarmat hefur ekki komið fram og þó að (Forseti hringir.) hv. formaður nefndarinnar ætli að reyna að bjarga sér á hundavaði og harðahlaupum á eftir er það ekki í samræmi við þingsköp Alþingis. Það er kjarni málsins.