140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Þetta voru margar og viðamiklar spurningar, en ég skal leitast við að svara þeim eins og ég get.

Fyrst varðandi tímapressuna þá upplifi ég það á þann veg að fyrir stuttu hafi málið allt farið í mikla tímapressu. Það varð einhver breyting í nefndinni á því hvernig menn ætluðu að afgreiða málið, allt í einu var tímapressan orðin mjög mikil. Aðrir verða að skýra hvers vegna, ég veit það ekki.

Varðandi dóm Hæstaréttar: Já, það er ljóst að Hæstiréttur, bæði meiri hluti og minni hluti, byggir á því að löggjafinn hafi farið út fyrir heimildir sínar í lögunum frá því í desember 2010. Það má því segja að í þessu tilviki veiti stjórnarskráin þeim vernd sem hagsmuna áttu að gæta í þessu máli.

Í þriðja lagi vildi ég geta þess að vinnulagið í þessum efnum hefur verið á þann veg að lengst af hefur allgóð sátt ríkt um það hvernig tekið hefur verið á þessum málum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Fyrir skömmu fóru að birtast — og mér fannst það fyrst og fremst vera í fjölmiðlum — yfirlýsingar frá einstökum varaformönnum nefndarinnar um að fara ætti þá leið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tilteknar spurningar í sumar samhliða forsetakosningum. (Gripið fram í: Rétt.) Síðan dúkkaði sú tillaga upp í síðustu viku að gera hvort tveggja, láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um plaggið í heild, annaðhvort óbreytt eða lítt breytt, og bera að auki upp fimm spurningar eða álitamál þar fyrir utan, auk þess sem upp dúkkaði hugmynd um að kalla stjórnlagaráðsfólkið frá síðasta ári með formlegum hætti aftur til starfa.