140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:47]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi umboð og ekki umboð þá liggur það ljóst fyrir að Alþingi hefur alla stöðu til að ákvarða um mál eins og þessi nákvæmlega eins og þingið setur lög. Þegar þingið setur lög skiptir ekki máli hvort 63 þingmenn eru sammála um að setja lögin eða meiri hluti þingsins ákveður það gegn atkvæðum minni hluta. Lögin gilda fyrir alla landsmenn og það er alveg það sama í þessu tilfelli. Meiri hluti þingsins hefur samþykkt að setja til starfa stjórnlagaráð og stjórnlagaráð hefur fullt umboð sem slíkt eftir að þingið hefur með meiri hluta sínum falið því þetta verkefni.

Varðandi vinnuferlið þá finnst mér vera uppi ákveðinn misskilningur af hálfu hv. þingmanns. Við erum að fjalla um þær tillögur að frumvarpi að stjórnarskrá sem stjórnlagaráð hefur lagt fram. Þetta eru ekki þær tillögur sem Alþingi eða þingmenn hafa lagt fram. Við erum að vinna úr þeim gögnum og þeim frumvarpsdrögum til að móta það frumvarp sem Alþingi mun fá til umræðu á hausti komanda. Við erum að vinna úr þessu vinnuplaggi og við metum það á þann veg að rétt sé að eiga gott samtal og samræðu við þjóðina um þær tillögur allar, bæði einstakar greinar og í heild sinni, áður en endanlegt frumvarp verður lagt fram til umfjöllunar og afgreiðslu á þingi á komandi hausti.