140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tel rétt undir liðnum um störf þingsins að ræða pistil sem birtist á vefritinu deiglan.com í gær um störf þingsins. Þar fjallar Pawel Bartoszek, sem er einn af þeim sem sátu í stjórnlagaráði, um störf þingsins og meðferð þess á tillögum stjórnlagaráðs. Það er ekki hægt að skilja annað á þeirri afstöðu sem birtist í þessum pistli en að þessi ágæti meðlimur í stjórnlagaráðinu sé búinn að segja sig frá verkinu vegna þess verklags sem þingið hefur viðhaft í málinu og vegna þess að viðkomandi fulltrúi skilur ekki tilganginn með því að vísa málinu aftur til stjórnlagaráðs. Það kemur fram í þessum pistli þegar hann fjallar um að ráðið hafi skilað bréfi með tillögum sínum, með leyfi forseta:

„„Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“

Og hvaða tillögur liggja á þessari stundu fyrir af hálfu þingsins varðandi breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs? Engar. Ekki ein einasta. Kannski koma einhverjar fyrir helgi, segja menn. Kannski eftir helgi. Kannski fær ráðið einhverjar spurningar frá einni þingnefnd. Kannski. En mér sýnist í fljótu bragði að á því hálfa ári sem þingið hefur haft tillögurnar til umræðu hafi ekki farið fram neinar raunverulegar efnislegar umræður um inntak þeirra sjálfra. Né heldur hefur þingið farið í þá vinnu að rýna tillögurnar af einhverri alvöru, ýmist til að finna hugsanlega ágalla eða styrkja grundvöll þeirra stjórnarskrárbreytinga sem lagðar hafa verið fram.“

Það eru mikil tíðindi, þykir mér, að þessi ágæti fulltrúi í ráðinu hafi hér með sagt sig frá málinu — það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi — á þeim forsendum að ekki sé ljóst á hvaða vegferð þingið er. Að mínu mati, eins og ég sagði í gær við þá þingmenn sem ég ræddi þetta við, er þingið í rauninni að segja pass og þorir ekki sjálft að taka afstöðu til málsins.