140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

húsnæðismál Náttúrugripasafns Íslands.

[10:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þetta mál. Ég get auðvitað tekið undir það að staða Náttúruminjasafnsins eins og hún er er slík, eins og við höfum raunar rætt áður í þinginu, að hana þarf að endurskoða. Ég vil bara nefna að ég hef núna sent bréf til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og óskað eftir því að hún tilnefni fulltrúa í samráð þar sem við förum yfir málefni safnsins, húsnæðismál og annað sem tengist safninu.

Hvað varðar húsnæðismálin sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um hafa ýmsir orðið til þess að benda á Perluna í ljósi þess að hún er í söluferli hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Ég tel að hún gæti verið áhugaverður kostur að því leytinu til að hún er mjög vel í sveit sett hvað varðar samgöngur, hún er í miðri náttúruperlu, þ.e. Öskjuhlíðinni, þar sem meira að segja er búið að setja upp einhvers konar gervihver fyrir neðan hana. Ýmislegt mælir með því húsnæði. Hins vegar á eftir að skoða það. Ég hef ekki verið í neinum viðræðum við Orkuveitu Reykjavíkur enda er Perlan í söluferli núna. Það verður að sjá hvað kemur út úr því en hins vegar hef ég ámálgað það óformlega við fulltrúa í stjórn að þetta væri áhugaverður kostur að skoða ef ekkert verður úr sölunni. Það hangir að sjálfsögðu á því hvaða skilmálar eru þar settir og hvaða framlög við höfum til að skoða málið.

Hvað varðar Lækningaminjasafnið er ljóst að framkvæmdir þar hafa orðið dýrari en áætlað var þegar upphaflegur samningur var gerður. Það hefur ekki verið skoðað af okkar hálfu, en ég held að það sé kostur sem eigi líka að taka til skoðunar hvað varðar framtíðarhúsnæði fyrir Náttúruminjasafnið. Hins vegar er hugmyndin þar að byggja upp lækningaminjasafn þannig að mér finnst það síðri kostur. Þar er ákveðin hugmynd að starfsemi sem átti að vera. Ég ítreka að þetta er að sjálfsögðu opið til skoðunar.