140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

staða ríkisstjórnarinnar.

[10:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera stöðu ríkisstjórnarinnar að umtalsefni. Eins og fram hefur komið hefur sú ríkisstjórn sem nú situr, sem kennir sig við velferð, verið dæmd þrisvar sinnum af Hæstarétti. Þjóðin hefur dæmt hana tvisvar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Úrskurðað hefur verið af kærunefnd jafnréttismála að forsætisráðherra hafi staðið ólöglega að ráðningarmálum. Og daginn eftir að ríkisstjórnin var dæmd í Hæstarétti fyrir gengislögin, sem fóru gegn stjórnarskrá, var ákveðið að taka stjórnlagaráðsmálið úr nefnd.

Í morgun var fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ég lagði aftur fram þá spurningu hvað mundi gerast ef stjórnlagaráð yrði ekki fullmannað. Einn ráðsmaður hefur þegar komið fram í fréttum og gefið út að hann muni ekki taka sæti í ráðinu og mér skilst að forsætisnefnd þingsins hafi undir höndum bréf sem snýr að því að forseti stjórnlagaráðs sjái sér ekki fært að mæta til vinnu ráðsins vegna annarra anna. Er þetta sú lagasetning sem við viljum sjá á Alþingi eftir hrunið, að farið sé í gegnum þingið með þingsályktunartillögu þar sem stjórnlagaráð, sem lokið hafði störfum, er endurvakið án þess að nokkur hafi athugað hvort stjórnlagaráði sé yfir höfuð gert fært að koma saman eða þeim aðilum sem þar sitja?

Þetta mál er alveg hreint með ólíkindum en líklega er þetta síðasti naglinn í líkkistu ríkisstjórnarinnar. Það sjá allir í hendi sér að sú vinna sem er fram undan, varðandi þá þráhyggju forsætisráðherra að breyta stjórnarskrá þegar önnur brýnni mál sem eru á döfinni, er dæmd til að mistakast. Hver er staða ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, í ljósi þess sem ég hef talið upp hér að framan?

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmann á að beina máli sínu til forseta þingsins í umræðum hér.)