140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans um afföll íbúðalána og kostnað við niðurfærslu lána, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:27]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hefði verið gott að hafa snilling eins og hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson í að stjórna einhverri stærstu og flóknustu aðgerð sem yfir höfuð hefur verið framkvæmd á Íslandi, sem (Gripið fram í.) eru samningarnir milli gömlu og nýju bankanna. Það skipti miklum sköpum fyrir Ísland að leiða tókst það mál til lykta með samningum en við sátum ekki föst með ónýtt bankakerfi og áralöng málaferli. Ég fullyrði úr þessum ræðustóli að þeir samningar standast algerlega prófið í framhaldi af því sem gerst hefur síðan í skuldamálum bæði heimila og fyrirtækja. Þeir gera það algjörlega. Sú aðferð sem þar varð að lokum ofan á, að semja um uppgjörstæki (Gripið fram í.) eins og í tilviki Landsbankans sem tekur að hluta til á því ef eignasöfnin reynast minna virði en matið var, eða að kröfuhafar taka áhættuna óbeint í gegnum eignarhald sitt á nýju bönkunum, sýnir í verki að þannig er það. (Gripið fram í: Þetta voru ólögleg lán.) Það sér mjög vel við þeim möguleika, hv. þingmaður, (BirgJ: Ólögleg lán.) sem og reynist það okkur mikil gæfa að bankarnir voru settir af stað mjög sterkt fjármagnaðir og hafa borð fyrir báru.

Auðvitað var, og er enn, glíman við skuldir heimila og fyrirtækja eftir hrun einhver erfiðasta glíman sem við stóðum frammi fyrir þegar þessi ósköp gerðust hér á landi. Það verður því miður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að skuldahlutföllin voru einhver þau hæstu, ef ekki þau hæstu sem fyrirfundust innan OECD fyrir hrun, bæði hjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum.

Ég man að ég skoðaði þetta nokkrum árum fyrir hrunið og þá var Ísland í 1. sæti í öðru tilvikinu og í 2. sæti í hinu. Japan skaust upp fyrir okkur, ef ég man rétt, í sambandi við skuldir heimila og Danir voru skammt undan. Skuldir voru hér mjög miklar, þar af leiðandi gat það ekki öðruvísi farið en svo að þegar hvort tveggja gerðist, á aðra hliðina féll gengið um yfir 40% og á hina hliðina kom verðbólguskot þar sem verðbólgan fór á ákveðnu tímabili upp í 18–20%, en að þessi staða yrði mjög erfið. Og það er hún svo sannarlega og hefur verið, en það á sér slíkar skýringar.

Því verður ekki á móti mælt að mikið hefur verið reynt til að glíma við þessa stöðu og það hefur Alþingi viðurkennt og hafa flokkar staðið hér sameiginlega að mörgum aðgerðum sem menn vilja núna lítið kannast við, samanber til dæmis vinnuna í júnímánuði 2010, ef mig man rétt. Eins má nefna ýmiss konar greiðslujöfnun, breytingar á gjaldþrotalöggjöfinni til að forða þeim fyrr út úr stöðunni sem lenda því miður á þeirri braut, sértækari aðgerð eins og sértæka skuldaaðlögun, 110%-leiðina og auðvitað hefur skipt máli sú úrlausn sem varð á gengistryggðu lánunum, meðal annars í gegnum dómstóla, að ógleymdum þeim stuðningi sem ríkið hefur sett inn í þennan málaflokk með stórhækkun vaxtabóta. Það gerðist strax á fyrri hluta árs 2009 í hið fyrsta sinn í miðri kreppunni, þegar erfiðast var, þegar vaxtabætur voru hækkaðar talsvert á þriðja milljarð króna til að koma til móts við greiðslubyrði skuldugra heimila.

Þær hafa síðan enn verið auknar með sérstakri vaxtaniðurgreiðslu á árunum 2011 og 2012 upp á 6 milljarða kr. hvort ár. Greiðslur í gegnum það tæki eru á nítjánda milljarð króna hvort ár um sig sem nemur rétt tæplega einum þriðja af heildarvaxtakostnaði heimilanna vegna húsnæðislána. Það eru staðreyndir sem ekki verður fram hjá horft. Þegar hefur mikið áunnist og staða fjölmargra hópa er mun betri en væri án þessara aðgerða, skuldaniðurfellingarnar eru um 200 milljarðar kr. hjá heimilunum, eins og komið hefur fram, og þó að vissulega megi færa talsvert af því á gjaldeyrisdómana (GÞÞ: 150 milljarðar.) væri það þannig — ef hv. þingmaður vildi einstöku sinnum hlusta, annars er hann upptekinn í símanum og það er kannski skaðlaust — að hefðu gjaldeyrisdómarnir ekki komið til hefði 110%-leiðin (VigH: Er þetta svarið?) að sjálfsögðu tekið miklu meira af þeim hlut og það hefði færst þangað. (Gripið fram í.) Það þarf ekki mikla þekkingu (Gripið fram í.) til að sjá þetta. (VigH: Ha?) Ef gjaldeyrislánin hefðu ekki áður sætt niðurfærslu vegna ólögmætisins hefðu veðsetningarhlutföllin hjá miklu fleiri, verið langt yfir 110%, og sú aðgerð hefði þá tekið meira af þessu yfir á sína hlið. (Gripið fram í.)

Ég tel að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans svari því þannig að vonandi þarf ekki lengur að rífast um það, að afslátturinn á heimilalánunum í yfirfærslunni úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju hefur verið nýttur og rúmlega það. (Gripið fram í.) Það má svo sem fara í enn eina úttektina á því en það blasir nokkuð við, held ég.

Þegar menn svo segja núna að bankarnir hafi borð fyrir báru til að taka á sig lækkun eigin fjár vegna nýjasta gjaldeyrisdómsins blanda menn saman tveimur aðskildum hlutum. Það geta þeir gert vegna þess að eiginfjárstaða þeirra er svo sterk að þeir þola lækkun á eigin fé og henni eiga þeir auðvitað að sæta vegna þess að hluti þeirra lána var ólöglegur. (EyH: Af hverju …?) Þá á hún að færast niður, að sjálfsögðu.

Mikið hefur verið unnið í þessum málum og mikið verið gert en þar með er ekki sagt að vandinn sé að baki, hann er það ekki, því miður, og það er alveg ljóst að eftir stendur meðal annars sá hópur með verðtryggð íslensk lán sem var rétt undir 110%-veðsetningarmörkunum og er áfram með mjög þunga greiðslubyrði. Sá hópur mun þurfa áframhaldandi og frekari stuðning eða aðgerðir eftir atvikum. Það er held ég sé öllum ljóst sem greina þessa stöðu að þar þarf að taka betur á. (Gripið fram í.)

En ég mæli samt með því að menn stígi varlega til jarðar, það verður auðvitað hver og einn að velja sitt göngulag, en ég vil að minnsta kosti ekki vera í þeim hópi sem gefur nú út stórfelldar yfirlýsingar um aðgerðir og sem á eftir að svara spurningunni: Hvernig á að fjármagna og útfæra það? Það væri ábyrgðarlaust að vekja væntingar um eitthvað stórfellt í viðbót sem reyndist svo erfitt í framkvæmd eða óviðráðanlegt fyrir ríkið að kostnaðurinn ætti að mestu leyti að lenda þar og það á ekki að vekja falsvonir um slíkt. Því þarf hins vegar ekki að blanda saman við hitt að öllum er ljóst að það þarf áframhaldandi og frekari stuðning og aðgerðir í þágu þeirra sem enn hafa ekki fengi fullnægjandi úrlausn, fyrst og fremst vegna þess að greiðslubyrði þeirra er of þung. Það er hún sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið, að menn ráði við skuldbindingar sínar og geti gengið í gegnum erfiðasta tímann því að að sjálfsögðu mun staðan lagast þegar hvort tveggja í senn og allt vonandi gerist, að fasteignaverð fer aftur hækkandi, að laun hækka meira en verðlag og ráðstöfunartekjur manna aukast til þess að ráða við greiðslubyrði sína. Þá gerist hvort tveggja í senn, að greiðslubyrðin lækkar og eignin tekur að myndast á nýjan leik í fasteigninni.