140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

skuldamál heimilanna.

[15:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég er á því eins og örugglega langflestir hv. þingmenn að eftir nýlegan dóm um gjaldeyrislánin þurfum við í fyrsta lagi að fá að vita hvernig hann liggur. Það er ekki alveg ljóst enn þá fyrir hvern hann gildir og hvaða fordæmi fylgja honum. Í fyrsta lagi þurfum við að fá það á hreint til þess að meta þá stöðu, síðan fylgir þessum dómi augljóslega önnur staða en áður var og því þurfum við að líta yfir þessi mál öllsömul.

Ég er ekki fær um að svara því hér og nú hvort lífeyrissjóðirnir séu aflögufærir eða hvort hægt sé að færa til baka viðskipti sem búið er að gera. Ég efast reyndar um að það sé hægt en þó er sjálfsagt að skoða tillögu hv. þm. Helga Hjörvars hvað það varðar.

Hv. þm. Helgi Hjörvar talar einnig um að skattleggja séreignarsparnaðinn strax, þ.e. taka skattinn strax. Ég er þeirrar skoðunar núna, og hef verið, að það sé flókin aðgerð. Það þarf að skoða ýmis sjónarhorn hvað hana varðar. Samkvæmt upplýsingum frá FME er þarna um 200 milljarða að ræða. Það þarf að skoða hve stór hlutur sveitarfélaganna er í því. Útsvarið er 14,4%, ekki satt, þannig að það þarf að reikna með því að sveitarfélögin fái sinn hlut. Síðan þarf að velta fyrir sér hvernig eigi að skattleggja sjóðinn. Við hvaða tekjur á að miða? Það eru ýmsar flækjur hvað þetta varðar.

Jú, hv. þingmaður og hæstv. forseti, ég er sammála því að ekki sé hægt að eyða hverri krónu nema einu sinni.