140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

ráðstafanir gegn skattsvikum.

458. mál
[16:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ég heyrði fyrst af því hvernig Norðmenn fara að hvað þetta varðar fannst mér það góð hugmynd einmitt vegna þess að þarna er sá sem kaupir svarta vinnu líka gerður ábyrgur. Umrætt ákvæði í norskum skattalögum tók gildi 1. janúar 2011 og er ætlað að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi.

Í meginatriðum kveður ákvæðið á um að kaupandi þjónustu yfir 10 þús. norskar kr. eða sem samsvarar rúmlega 210 þús. íslenskum kr. geti orðið meðábyrgur vegna þess skatts sem seljandi hefði átt að greiða vegna viðskiptanna. Reglan gildir einungis ef kaupandi þjónustunnar greiðir fyrir viðskiptin með reiðufé og þegar um kaup á þjónustu er að ræða en ekki við vörukaup. Kaupandi getur hins vegar komið sér undan fyrrnefndri meðábyrgð greiði hann fyrir umrædda þjónustu í gegnum bankastofnun eða með öðrum rafrænum hætti.

Þó að það komi ekki beint fram í ákvæðinu sjálfu er því fyrst og fremst ætlað að ná til þjónustu iðnaðarmanna og annarra sjálfstætt starfandi verktaka. Þá er tilgangurinn með ákvæðinu öðrum þræði að auka vitund norskra skattborgara um þá vankanta sem fylgt geta notkun reiðufjár við kaup á þjónustu.

Þar sem ákvæðið er nýtt af nálinni eða rétt rúmlega ársgamalt er lítil reynsla komin á framkvæmd þess samkvæmt upplýsingum frá norska fjármálaráðuneytinu. Í því samhengi er rétt að taka fram að þessi nýja regla Norðmanna er meðal þess sem getið er í nýlegri skýrslu OECD um svarta hagkerfið. Skýrslan er frá því í desember 2011 og fjallar um ráðstafanir ríkja til að auka skatttekjur vegna skatts svartrar atvinnustarfsemi. Í henni er meðal annars tekið fram að ekki sé unnt að meta áhrif norska ákvæðisins þar sem of stutt sé liðið frá gildistöku þess.

Í nefndri skýrslu OECD er að finna ágætt yfirlit yfir þau atriði sem rétt er að horfa til þegar metið er hvernig einstök ríki reyna að stemma stigu við undanskoti skatta. Þar er að finna greinargóða umfjöllun um ýmis hugtök og hvernig notkun þeirra er mismunandi milli landa. Þá er í skýrslunni að finna yfirlit yfir þær atvinnugreinar sem taldar eru líklegri til undanskots en aðrar. Talið er mjög mikilvægt að ríki séu meðvituð um að hvaða greinum atvinnulífsins viðbrögð yfirvalda eiga að beinast og að úrræðin séu valin með það í huga.

Ég tel það ekki tímabært á þessari stundu að taka upp sambærilegt ákvæði í íslensk lög og það norska. Rétt væri að sjá hver reynsla Norðmanna verður af ákvæðinu og endurmeta þá stöðuna þegar þær niðurstöður liggja fyrir og árangurinn hefur verið metinn. Ekki er ólíklegt að svona ákvæði reynist að einhverju leyti erfitt í framkvæmd og að einhverja vankanta þurfi að sníða af því af þeim sökum. Í ljósi reglubundinna samskipta íslenskra og norskra sérfræðinga á sviði skattamála ætti að vera tiltölulega auðvelt að afla upplýsinga um árangur Norðmanna af beitingu ákvæðisins.

Hitt er annað mál að mikilvægt er að halda sífellt vöku sinni hvað þessi mál varðar og sjálfsagt er að skoða alla kosti og meta á hverjum tíma hvernig rétt er að bregðast við og reyna að hindra undanskot. Í því sambandi má taka fram að í OECD-skýrslunni sem áður var nefnd er sérstaklega tiltekið að skattaívilnanir vegna vinnu við viðhald eða endurbætur á húsnæði geti dregið úr skattasniðgöngu í þeim geira, en eins og kunnugt er er talið að þær reglur sem gilt hafa hér á landi undanfarið eða frá árinu 2009, um endurgreiðslu 100% virðisaukaskatts og skattaívilnanir vegna vinnu við endurbætur á húsnæði, hafi gefist vel.

Einnig var sett í gang átaksverkefni á vegum ASÍ, SA og RSK síðasta sumar undir yfirskriftinni Leggur þú þitt af mörkum? þar sem lögð var sérstök áhersla á átak gegn svartri atvinnustarfsemi og bætt skil á lögbundnum gjöldum. Samstarfsverkefnið sneri að bættum viðskiptaháttum lítilla og meðalstórra fyrirtækja með veltu undir einum milljarði kr. og voru yfir tvö þúsund fyrirtæki heimsótt og staða yfir sex þúsund starfsmanna þeirra yfirfarin. Í ráðuneytinu er til skoðunar hvernig halda skuli þeirri vinnu áfram sem hófst með átaksverkefninu.

Virðulegur forseti. Ég er með öðrum orðum að segja að við fylgjumst grannt með þessari tilhögun Norðmanna. Mér líst vel á hana en ég vil frekar að við lærum af reynslu Norðmanna og tökum ákvæðið upp þegar búið er að sníða af því helstu vankantana.