140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

þátttaka í Eurovision-söngvakeppninni í Aserbaídsjan.

516. mál
[18:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Íslenskir þingmenn fara víða og í fyrra var víða í löndum svokallaðra nýfrjálsra ríkja fagnað 20 ára sjálfstæðisafmælum þeirra sem áður voru hluti af Sovétríkjunum. Ég átti þess kost að heimsækja Aserbaídsjan af slíku tilefni í fyrrahaust og það verður að segjast eins og er að margt kom mér þar verulega á óvart, kannski mest að sjá stóran gám merktan Samskipum einhvers staðar úti í eyðimörkinni með glugga og hurðum á. En í þessu samhengi vakna auðvitað alltaf spurningar um það hvort við eigum að taka þátt í keppnum, íþróttaviðburðum og öðru slíku.

Ég verð að segja að ég er ekki mikill aðdáandi söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva en ég tel að við eigum í reynd að reyna að halla okkur að norrænum frændþjóðum í þeim efnum, en við eigum líka að hlusta á tilmæli Amnesty International (Forseti hringir.) sem hvetja til þátttöku en jafnframt til gagnrýni (Forseti hringir.) í hugarfari og fréttaflutningi af þessari keppni.