140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

virðisaukaskattur.

490. mál
[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ég þar með talinn, flytja og fjallar um það að barnaföt og nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi falli undir virðisaukaskatt sem er 7%, þ.e. lægra þrepið. Þá er væntanlega ýmislegt fleira inni í þessu, barnakerrur, barnavagnar og margt fleira sem tengist barnauppeldi, það eru ekki bara fötin.

Ég er í sjálfu sér hlynntur því að hafa skattkerfið einfalt og án undantekninga og frumvarpið er brot á þeirri hugsjón minni. En undanfarin tvö til þrjú ár hafa þvílíkar aðgerðir verið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í því að flækja skattkerfið, gera það ógagnsætt og hækka skattprósentur allverulega. Virðisaukaskattur var til dæmis hækkaður úr 24,5% í 25,5% og er farinn að nálgast sársaukamörk. Þá er hægt að rökstyðja undanþágur þar sem skatturinn fer jafnvel að snúast í andhverfu sína. Hann hættir að afla ríkissjóði tekna eins og honum er ætlað og ríkissjóður getur jafnvel skaðast á því hve skatturinn er orðinn hár.

Ég má til með, herra forseti, að minnast hér á Laffer-kúrfuna. Það var bandarískur hagfræðingur sem benti á að ef skattprósentan væri til dæmis 0% af tekjuskatti hefði ríkissjóður engar tekjur. Ef menn hækkuðu svo prósentuna svona hægt og rólega upp í 20%, 30%, 50%, 70% og 100% — við 100% mörkin væru tekjur ríkissjóðs væntanlega aftur 0 vegna þess að enginn mundi vinna ef allar tekjurnar færu í skatt. Einhvers staðar á þessu ferli í hækkun skattprósentunnar er hámark á tekjum ríkissjóðs. Þetta táknar hann sem Laffer-kúrfu. Auðvitað er ekki vitað hvernig lagið á henni er. Það er háð ýmsu. Það er háð heiðarleika þjóðfélaga, hversu heiðarlegt fólk er almennt. Það er mjög mismunandi eftir þjóðfélögum. Það er líka háð því hvernig efnahagsástandið er, hvort menn séu aflögufærir. Það er líka háð því hverjir möguleikar eru á undanskotum og þar komum við einmitt inn á flækjustigið. Eftir því sem skattkerfið er flóknara þeim mun auðveldara er að svíkja undan skatti. Sem dæmi má nefna að steiktur kjúklingur ber 7% skatt ef hann er afgreiddur sem matvara í stórverslun en 25,5% virðisaukaskatt ef hann er afhentur á veitingastað en þegar hann er afgreiddur út um lúgu fer þetta nú að verða skemmtilegt. Mörkin geta verið mjög óljós. Síðan getur skipt máli hvort kex sé með meira súkkulaði en minna, þannig að það eru alls konar svona dæmi, og hvort súkkulaðið er ofan á eða undir, það eru alls konar jaðartilfelli sem koma upp.

Það er búið að flækja skattkerfið mjög mikið. Það er búið að þyngja skattbyrðina. Það er búið að gera það þannig úr garði að möguleikar á skattsvikum verða umtalsverðir.

Eitt sem mikið hefur verið básúnað og var rætt hér í gær er verkefnið Allir vinna. Farið var af stað með það vegna þess að menn óttuðust að skattsvikin væru svo mikil að ástæða væri til að verðlauna þá sem telja rétt fram og skila öllum nótum inn til skattstjóra. Þeir sem vinna eftir því framtaki fá virðisaukaskattinn endurgreiddan að öllu leyti og auk þess geta þeir dregið virðisaukaskattinn frá tekjuskatti, það er gert til þess að auka atvinnu og hvetja fólk til að fara í viðhald og annað slíkt.

Menn eru sem sagt á mjög marga vegu að grafa undan því að skattkerfin séu almenn. Ég sé enga þörf á því að nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi eigi að bera hærri skatt en bækur sem falla undir 7% skattinn af því það styður menningu. Ég vil líka benda á að veiðileyfi í laxveiðiám eru undanþegin virðisaukaskatti, það væri nú ástæða til að líta frekar til þess en á barnafólk.

Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn að leggja fram tillögur um niðurfellingu á virðisaukaskatti af barnafötum? Það er eiginlega tvennt sem veldur því. Það er í fyrsta lagi vegna þess að staða heimila er mjög slæm, sérstaklega fólks með börn, því að fólk með börn þarf húsnæði, annaðhvort að leigja það — staða leigjenda er afskaplega slæm og staða skuldara er líka slæm og alveg sérstaklega þeirra sem keyptu á árabilinu 2004–2008. Það er einmitt unga fólkið sem er með börn sem er í þeim hópi og sennilega er það stærsti hópurinn þó að það liggi nú ekki fyrir frekar en annað um stöðu heimilanna, herra forseti. Það virðist enginn áhugi vera á því að vita hver er staða heimilanna. Þarna er sennilega mikil þörf á að lækka útgjöld. Það er fyrsta ástæðan fyrir því að ég styð þetta frumvarp.

Önnur ástæðan er sú að það hefur sýnt sig að töluvert mikið af barnafötum er keypt í útlöndum, sérstaklega í Bretlandi þar sem virðisaukaskatturinn á barnafötum er enginn. Barnaföt sem keypt eru í Bretlandi gefa íslenska ríkissjóðnum engar tekjur. Ferðamenn mega flytja ákveðinn skammt af vörum til landsins, upp að vissu marki, og ríkissjóður fær engar tekjur af fötum sem keypt eru í Bretlandi. Þess vegna kann að vera að lækkun skattprósentunnar, úr 25,5% niður í 7%, auki, í samræmi við Laffer-kúrfuna, tekjur ríkissjóðs af þessum málaflokki. Það er mjög margt í skattkerfinu sem er mjög undarlegt vegna þessarar Laffer-kúrfu.

Þegar skattar eru hækkaðir of mikið færast skattsvik í vöxt sem reynt er að koma í veg fyrir með því að fara út í verkefni eins og Allir vinna. Skattstofninn deyr hreinlega, viðkomandi starfsemi leggst af. Það gæti til dæmis gerst í ferðaþjónustu. Ef hún er skattlögð of mikið þá koma ferðamennirnir einfaldlega ekki því að þjónustan verður of dýr. Síðan getur fólk vikið sér undan því að borga skattinn, það getur skroppið til Bretlands til að komast undan honum.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég styð þetta frumvarp, ríkið nær þó alla vega í 7% virðisaukaskatt af þessum skattstofni. Það eykur líka umsvif innan lands í barnafataverslunum og verslunum með kerrur og slíkan varning. Fólkið sem þar vinnur eða fær vinnur borgar þá tekjuskatt og dettur út af atvinnuleysisbótum. Það er talið að hver starfsmaður sem breytist úr því að vera atvinnuleitandi í það að vera skattgreiðandi auki tekjur ríkissjóðs og minnki útgjöldin um 4 milljónir.

Það er ýmislegt til vinnandi að reyna að ná þessum skattstofni heim. Ég styð því frumvarpið en auðvitað eigum við til framtíðar að stefna að því að skattstofnar séu svo einfaldir án undantekninga, að erfitt sé að svindla á þeim og fólk sé almennt séð sátt við að borga þá skatta sem lagðir eru á.